Hin (svolítið) skagfirska Halla Tómasdóttir kjörin forseti

Niðurstöður forsetakosninganna 2024. SKJÁMYND AF RÚV.IS
Niðurstöður forsetakosninganna 2024. SKJÁMYND AF RÚV.IS

Feykir greindi frá því aðfaranótt sunnudags að allt benti til þess að Halla Tómasdóttir stefndi hraðbyri á Bessastaði og myndi sigra forsetakosningarnar líkt og fyrstu tölur úr öllum kjördæmum bentu til. Svo fór að sjálfsögðu eins og ætti ekki að hafa farið framhjá nokkrum manni.

Halla var kjörin forseti Íslands með 34,3 prósent atkvæða í kosningunum þann 1. júní sl., eða ríflega níu prósentum meira en Katrín Jakobsdóttir sem fékk 25,2% atkvæða og hafnaði í öðru sæti. Kjörsókn var 78,83%, meiri en í nokkrum forsetakosningum síðan Ólafur Rangar Grímsson var kjörinn forseti í fyrsta sinn. Það voru 210.419 manns sem greiddu atkvæði.

Halla Tómasdóttir verður sjöundi forseti Íslands. Alls voru tólf frambjóðendur í kjöri svo úr nægu var að velja. 

Skagfirðingar pínu grobbnir

Halla, sem er fædd 11. október 1968, er dóttir Kristjönu Sigurðardóttur þroskaþjálfa og Tómasar Þórhallssonar pípulagningameistara sem lést eftir stutta baráttu við krabbamein árið 2008. Halla er alin upp í Kársnesi í Kópavogi en bent var á það í kosningabaráttunni að hún á djúpar rætur í Skagafirði og vestur á Ströndum og var í sveit í Skagafirði. „Tómas Björn Þórhallsson faðir hennar var fæddur á Hofi í Hjaltadal. Hann missti móður sína þriggja ára gamall og pabba sinn ungur og var sendur átta ára gamall í vist á Kolkuósi og ólst þar upp til 15 ára aldurs,“ skrifaði Magnús Óskarsson frá Brekku í aðsendri stuðningsgrein í Feyki.

Halla á tvær systur og er gift Birni Skúlasyni og þau eiga börnin Tómas Bjart, 22 ára og Auði Ínu sem er tvítug. Þau stunda bæði háskólanám í Bandaríkjunum líkt og móðir þeirra gerði. Halla ólst upp á Kársnesi í Kópavogi og á ættir að rekja til Skagafjarðar og Stranda.

Mun leiða hópa og kynslóðir saman

Feykir spurði Höllu fyrir kosningar hvers vegna fólk ætti að veita henni atkvæði sitt og svaraði hún: „Ég mun leiða hópa og kynslóðir saman til samtals og samstarfs í þágu þjóðar. Ég hef menntunina, reynsluna og tengslanetið til að geta lagst á árar svo um munar. ... Mér þykir einlæglega vænt um land og þjóð og vil leggja mig alla fram um að styðja hagsmuni Íslands og Íslendinga á öllum sviðum okkar samfélags. Ég trúi því að með virkjun sköpunargáfu okkar getum við áfram verið mikilvæg fyrirmynd og þannig haft jákvæð áhrif á heiminn.“

Feykir óskar Höllu til hamingju með árangurinn og forsetaembættið en hún tekur við stjórnartaumum á Bessastöðum 1. ágúst næstkomandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir