Hilmar Hilmarsson varði doktorsritgerð sína
Hilmar Hilmarsson varði doktorsritgerð sína: Microbicidal activity of lipids, their effect on mucosal infections in animals and their potential as disinfecting agents þann 28 nóvembers.l.
Hilmar sem er fæddur 13 september 1976, bjó lengi á Sauðárkróki sonur Hilmars Hilmarssonar sem kendur var við Kjötval og Kristbjargar Óladóttur. Hilmar er stúdent frá náttúrufræðibraut Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra 1997, B.sc. Líffræðingur frá Háskóla Íslands 2002. Í sambúð með Jónu Krístínu Jónsdóttur.
Doktorsvörnin fór fram við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
Á vef Háskólans er þetta að finna um vörnina:
Microbicidal activity of lipids, their effect on mucosal infections in animals and their potential as disinfecting agents.
Fituefni: Örverudrepandi áhrif og þróun á lyfjaformum til meðferðar á sýkingum í dýrum og til sótthreinsunar.
Andmælendur voru dr. Jürgen Schwarze prófessor við læknadeild Edinborgarháskóla í Skotlandi og dr. Viggó Þór Marteinsson deildarstjóri Örverurannsókna Matís ohf.
Aðalleiðbeinandi í verkefninu var Dr. Halldór Þormar prófessor emeritus í líffræði. Í doktorsnefnd voru dr. Guðmundur H. Guðmundsson prófessor í líffræði og Dr. Þórdís Kristmundsdóttir prófessor í lyfjafræði við Háskóla Íslands
Sigurður S. Snorrason, prófessor, forseti líf- og umhverfisvísindadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Öskju/Náttúrfræðahúsi í Sal 132 og hefst kl 14:00.
Ágrip af rannsókn
Í þessari rannsókn voru náttúruleg fituefni prófuð gegn algengum manna- og dýraörverum. Lyfjaform sem innihéldu virkustu fituefnin voru hönnuð og prófuð gegn veiru- og bakteríusýkingum í dýratilraunum.
Mónókaprín var virkasta fituefnið gegn herpes simplex veiru, respiratory syncytial veiru (RSV) og parainflúenzu veiru týpu 2, en lárín sýra (12:0) var virkust gegn visnuveiru og einnig mjög virk gegn RSV. Fituefnin reyndust einnig mun virkari við lágt pH gildi heldur en við hlutlaust pH.
Hönnuð voru lyfjaform sem innihéldu mónókaprín og lárínsýru sem virk veirudrepandi efni og prófuð gegn RSV sýkingu í rottum. Lyfjaformin lækkuðu veirutíter í nefslímhimnum rottanna og höfðu engar aukaverkanir.
Hliðstæðar tilraunir á fituefnum gegn bakteríum sýndu að mónókaprín er mjög virkt gegn kampýlobakter við hlutlaust pH og gegn salmonellu og E. coli við lágt pH. Tilraunir sýndu að bakteríudrepandi mónókaprínfleyti draga verulega úr kampýlobaktermengun á plast- og viðarskurðbrettum og lækka kampýlobakter líftölu í fóðri og drykkjarvatni eldiskjúklinga.
Mónókaprínfleyti sem var bætt í drykkjarvatn og fóður kampýlobaktersýktra eldiskjúklinga dró marktækt úr sýkingu í þörmum fuglanna en hafði ekki áhrif á heilbrigði þeirra og vöxt.
Þessar niðurstöður sýna að mörg fituefni hafa örverudrepandi virkni, en virknin er mismunandi eftir sýklategundum. Hægt er að auka örverudrepandi virkni almennt með því að lækka pH gildi í lausnum fituefnanna.
Virkasta efnið er mónókaprín sem er flokkað sem skaðlaust efni af Matvæla og Lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA). Mónókaprín gæti því reynst góður kostur sem umhverfisvænt breiðvirkt örverudrepandi efni gegn örverum sem sýkja menn og dýr.
Verkefnið var unnið í samvinnu við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Matfugl ehf. Verkefnið var styrkt af Rannís, Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.