Heima er best
ÁR ÞÚ VEIST HVAÐ :: „Mér stökk ekki bros á árinu!“ segir Gísli Einarsson Lunddælingur og Landastjóri þegar Feykir innir hann eftir því hvað honum hafi þótt broslegast árið 2020. Gísli, sem býr í Borgarnesi, er landsmönnum öllum að góðu kunnur og hann féllst á að svara ársuppgjöri Feykis með orðunum: „Að sjálfsögðu. Allt fyrir Feyki!“ Auk þess að vera dagskrárgerðarmaður á RÚV er hann vatnsberi og notar skó í númerinu 47. Árinu lýsir hann í þremur orðum á þennan klassískan máta: „Helvítis fokkings fokk!“
Hver er maður ársins? Víðir Reynisson. Ætla ekki að reyna að vera með nein frumlegheit hvað það varðar. Hann er tvímælalaust sameiningartákn þjóðarinnar í baráttunni gegn Covid 19. Ég hefði vissulega getað nefnt líka íslenskt heilbrigðisstarfsfólk en ég skildi þetta þannig að spurt væri um einstakling.
Hver var uppgötvun ársins (fyrir utan bóluefni við þú veist hvað)? Að komast að því að við eigum álíka marga sóttvarnarlækna og landsliðsþjálfara, þ.e. tugþúsundir af hvoru. Síðan gerði ég þá persónulegu uppgötvun að það er bara fínt að fá tíma til að slaka á.
Hvað var lag ársins? Ég á ársgamalt barnabarn sem brestur í dans um leið og hún heyrir Baby Shark. Við erum búin að hlusta á það saman milljón og fjórum sinnum. Þannig að það er tvímælalaust lag ársins fyrir mér.
Hvað var broslegast á árinu? Mér stökk ekki bros á þessu ári!
Hvað var það sem þú sérð mest eftir að hafa ekki geta gert á árinu vegna þú veist hvað? Þar koma náttúrulega utanlandsferðir uppí hugann en aðallega er ég sáttur við allt sem ég gat gert.
Varp ársins? Fyrir mér er alltaf sami þátturinn varp ársins en ég get líka nefnt metnaðarfulla og vel heppnaða útsendingu ungs tónlistarfólks úr Bifröst á Sauðárkróki á dögunum.
Matur eða snakk ársins? Geitapaté með rifsberjahlaupi.
Hverju viltu skella á brennuna og hvers vegna? Teams-fundum! Af því mig langar að hitta fólk!
Hver var helsta lexía ársins? Heima er best!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.