Sunddeild Tindastóls og þjálfaraskortur | Hildur Þóra Magnúsdóttir skrifar
Á sundæfingum yngstu hópana er börnum hjálpað að læra grunnatriði sunds á öruggan og skemmtilegan hátt. Fyrir börn getur sundið veitt þeim, ekki aðeins sjálfsöryggi í vatni, heldur einnig aukið hreyfigetu og samhæfingu. Það að kynnast sundíþróttinni ung að aldri getur haft mikilvæg áhrif á líkamlega og andlega heilsu þeirra til framtíðar.
Mikilvægt að fá þjálfara til starfa sem allra fyrst
Sem foreldri hef ég notið starfa sunddeildarinnar og hafa öll mín þrjú börn stundað þar æfingar í einhver ár á árum áður. Mér þykir vænt um það starf sem stunddeildin sinnir og er einstaklega þakklát því fólki sem þar býður fram krafta sína í óeigngjarnt sjálfboðaliðastarf í stjórn. Síðan í haust hefur deildinni skort þjálfara og þrátt fyrir vinnu stjórnar við að leita að starfsmanni til að taka að sér starfið hefur leitin ekki borið árangur. Það er næsta víst að ef ekki finnst þjálfari í verkefnið sem fyrst, mun deildin missa varanlega úr starfinu iðkendur, sem annars hefðu haldið áfram og jafnvel blómstrað í sundinu. Það er því mjög mikilvægt að við finnum þjálfara til starfa og það sem allra fyrst.
Í ljósi þess hve mikilvægur þáttur sundþjálfarar eru í æfingum barnanna, þá er það mikil áskorun fyrir sunddeildina að standa frammi fyrir skorti á þjálfurum. Það er brýnt að finna hæfa einstaklinga til starfa, þar sem hlutverk þeirra er að tryggja öryggi, leiðsögn og stuðning fyrir yngstu iðkendurna. Starf sundþjálfara er krefjandi en einnig ótrúlega gefandi. Ég vil því hvetja alla til að hafa augun opin fyrir einstaklingum sem gætu hentað í þetta mikilvæga starf, og stuðla þannig að áframhaldandi velgengni deildarinnar og heilsu barnanna í samfélaginu.
Hildur Þóra Magnúsdóttir
Foreldri í Skagafirði
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.