Hélt að einhver væri að rista brauð
Það fylltist allt af reyk og brunavarnakerfið fór í gang, ég hélt fyrst að einhver hefði verið að rista brauð, segir Svavar Sigurðsson, ostameistari, sem ekki var staddur í matsal Samlagsins þegar Nissan jeppi var ekið á fullri ferð langt inn í bygginguna.
Þar sem bifreiðin kom inn í bygginguna sátu menn að snæðingi og þykir mikil mildi að enginn slasaðist en einungis tvö borð voru heil. Starfsmaður sem sat í sófa við enda kaffistofunnar þegar bíllinn kom inn lýsti atburðarásinni eins og hann hefði verið að horfa á kvikmynd. Hann sagðist hafa orðið gjörsamlega lamaður og ekki komið upp svo mikið sem orði til þess að vara aðra starfsmenn við. Það eina sem hann hafi getað gert hafi verið að hlaupa út.
Bifreiðin ýtti rúman metra á undan sér borði í matsalnum sem setið var við. Starfsmanninum var ekki meir en svo meint af að eftir að hafa þegið plástur hélt hann til vinnu sinnar. Hann vildi ekki ræða við blaðamann.
Þrátt fyrir mikið rask verður ekki truflun á vinnslu í Mjólkursamlaginu enda var einungis um kaffistofu að ræða. Höfðu menn á orði að líklega yrðu afköstin bara meiri ef eitthvað væri þar sem ekki yrði hægt að hanga í kaffi.
Aðspurður um áfallahjálp sagði Snorri Evertsson að hér þekktu menn ekkert svoleiðis.
Bílstjórinn, sem talið er að hafi fengið aðsvif, var kominn til meðvitundar áður en hann var fluttur á sjúkrahús þar sem hann er nú til aðhlynningar. Hann er ekki alvarlega slasaður.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.