Helgu Margréti boðið á alþjóðlegt fjölþrautarmót
Húnvetningurinn Helga Margrét Þorsteinsdóttir sem er ein besta frjálsíþróttakona landsins hefur fengið boð um að taka þátt í sjöþraut á alþjóðlega fjölþrautarmótinu í Götzis í Austurríki í júní á næsta ári. Helga æfir og keppir undir merkjum Íþróttafélagsins Ármanns í Reykjkavík.
Mótið er að undanskildum álfu- og heimsmeistaramótum talið vera stærsta fjölþrautarmótið sem haldið er á hverju ári. Allir þátttakendur fá boð á mótið og er Helga fyrst íslenskra kvenna til að fá slíkt boð. Þátttakendur verða að hafa náð 6.000 stigum í samanlögðum árangri og var sérstaklega tiltekið í boðinu að gerð verði undantekningu fyrir Helgu vegna þess hversu efnileg hún er, en Íslandsmet hennar í sjöþraut er 5.878 stig.
Helga ætlar að mæta til leiks á mótið og segist mjög spennt fyrir því, enda fái hún þar að glíma við þær bestu í sjöþrautinni. Helga æfir af fullum krafti um þessar mundir og vonast til að geta bætt Íslandsmetið í fimmtarþraut innanhúss á næsta ári. Þá hefur hún einnig sett stefnuna á heimsmeistaramót 19 ára og yngrisem fer fram í Kanada næsta sumar.
/ Mbl.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.