Helgarspá Veðurvaktarinnar
Einar Sveinbjörnsson, verðurfræðingur, heldur úti skemmtilegu veðurbloggi. Hann hefur nú gefið út sína helgarspá. Feykir.is er á því að þarna sé á ferðinni besta spáin fyrir okkar svæði og helgina og við höfum því ákveðið að trúa þessari spá.
Spá Einars:
-Heilt yfir góðar horfur um helgina sér í lagi á sunnudag. Hægviðrasamt, en vindur verður norðaustlægur undir lokin. Fremur milt, en þó engin sérstök sumarhlýindi.
Föstudagur 31. júlí:
Hægur vindur á landinu, en þó NA- og N strekkingsvindur á Vestfjörðum og á Vesturlandi. Vindurinn þar fer minnkandi eftir því sem líður á daginn. Smásúld við Húnaflóann og sums staðar úti við sjóinn norðanlands og eins minniháttar úrkoma austanlands seint um daginn. Annars verður að mestu skýjað á landinu, einna helst bjartviðri suðvestanlands. Í uppsveitum Suðurlands og sunnanverðu hálendinu má búast við skúrum síðdegis. Hiti allt að 15 til 18 stig sunnan- og suðvestanlands, en annars lengst af 9 til 12 stig.
Laugardagur 1. ágúst:
Hægviðrasamt á landinu og víða hafgola. Utan norðanverðra Vestfjarða og utantil við Húnaflóann þar sem gert er ráð fyrir súld eða smá rigningu ætti að sjást til sólar víðast hvar. Þó eru horfur að heldur þyngi að austan- og suðaustantil á landinu eftir því sem líður á daginn. Það er að sjá að hagstæð skilyrði verði fyrir myndun fjallaskúra síðdegis, einkum sunnan- og suðvestanlands. Aðalatriðið er þó að vindur verður hægur, sólarglennur a.m.k. víðast hvar og hiti 14 til 18 stig yfir miðjan daginn. 5 til 9 stig um nóttina.
Sunnudagur 2. ágúst:
Svo er að sjá að lægð sem litlu má muna að komi hér við á leið sinni norðaustur um haf, fari hjá og hafi engin áhrif hér á landi. Léttir til um norðvestanvert landið og gera má ráð fyrir hinu besta veðri víðast hvar. Vindur örlítið austanstæður sem býður jafnframt hættunni heim á Austfjarðaþoku. Veður heldur hlýnandi almennt séð á landinu og allt að 18 til 19 stiga hiti vestan- og suðvestanlands og sennilega einnig norðantil á landinu.
Mánudagur 3. ágúst:
Vindur ákveðnari af norðaustri og auknar úrkomulíkur norðan- og austanlands. Að sama skapi er sennilegt að úrkomulaust og bjart verði sunnanlands og vestan. Fremur milt loft yfir landinu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.