Helga Margrét Þorsteinsdóttir íþróttamaður USVH

Tilkynnt var á þrettándagleði á Hvammstanga í gærkvöldi hver hefði verið valinn íþróttamaður USVH árið 2008. Fyrir valinu varð Helga Margrét Þorsteinsdóttir frjálsíþróttakona  með 81 stig. Í öðru sæti varð Lóa Dís Másdóttir körfuboltakona með 21 stig og í þriðja sæti Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir körfuboltakona með 15 stig. Helga Margrét var líka kjörinn íþróttamaður USVH 2007.

Helga Margrét hlaut yfirburðakosningu og er vel að titlinum komin. Hún keppti í mörgum greinum á árinu og bætti mörg metin. Íslandsmet setti hún í fimmtarþraut stúlkna, U20, U22 og í kvennaflokki. Þá setti hún Íslandsmet í kúluvarpi innanhúss í flokki stúlkna og ungkvenna. Helga setti einnig Íslandsmet í flokki stúlkna og ungkvenna í 60m grindahlaupi og 200m hlaupi innanhúss.

Þá var Helga á faraldsfæti og keppti erlendis á nokkrum mótum. Hún varð Norðurlandameistari í fjölþraut þegar hún sigraði í sjöþraut 17 ára og yngri. Enn eitt Íslandsmetið setti hún svo í sjöþraut á sterku móti í Tékklandi. Þá keppti hún á Heimsmeistaramóti 19 ára og yngri í sjöþraut sem fram fór í Póllandi og hafnaði þar í 7. sæti.  Helga keppti einnig á Norðurlandamóti unglinga sem fór fram í Noregi og náði 4. sæti í 400m hlaupi.  (Nordanatt.is)
Íþróttamenn USVH geta orðið þeir íþróttamenn 16 ára og eldri sem lögheimili eiga í Húnaþingi vestra eða keppa undir merkjum félaga innan USVH. Það eru stjórnarmenn í aðildarfélögum USVH og stjórn USVH sem kjósa íþróttamanninn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir