Helga Margrét heimsmeistari í Kínaskák
Í dag er síðasti dagskrárdagur Elds í Húnaþingi og þar hefur verið bryddað upp á einu og öðru. Nú á föstudaginn fór heimsmeistaramótið í Kínaskák til að mynda fram á Hvammstanga en metþátttaka var í mótinu því alls tóku 80 manns þátt. Það eru meira en helmingi fleiri þátttakendur en í fyrra og kom mótshöldurum í opna skjöldu svo að opna varð inn í annan sal.
Í færslu á Facebook-síðu Félags eldri borgara í Húnaþingi vestra segir að þátttakendur hafi komið viða að, m.a. frá Selfossi, Akureyri, Reykjavík og að sjálfsögðu úr Húnavatnssýslu.
Helga Margrét Guðjónsdóttir frá Akureyri var krýndur heimsmeistari í Kínaskák 2024 með 310 stig, í öðru sæti varð Bjarney G Valdimarsdóttir frá Hvammstanga með 350 og í þriðja sæti Kristinn Björgúlfsson Hafnarfirði með 375 stig. Stigahæstur varð aftur á móti Ársæll Ársælsson með 1325 stig.
„Bestu þakkir til allra sem tóku þátt og unnu við mótið, steiktu vöfflur og unnu öll þau handtök sem þurfti,“ segir í færslunni.
Kínaskák ku vera mjög skemmtilegt handspil fyrir marga spilamenn. spilað á venjulegan spilastokk, svipar til Rommí.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.