Hekla Guðrún vann Nemakeppni Kornax 2023

Hekla Guðrún við vinningsborðið, glæsilegt og girnilegt er það, er það ekki?
LJÓSM: ÁRNI ÞORVARÐARSON.
Hekla Guðrún við vinningsborðið, glæsilegt og girnilegt er það, er það ekki? LJÓSM: ÁRNI ÞORVARÐARSON.

Sú skemmtilega keppni, Nemakeppni í bakaraiðn, var haldin 6. október sl. en úrslitakeppnin var svo haldin fimmtudaginn 12. og föstudaginn 13. október í Hótel- og matvælaskólanum, bakaradeild Menntaskólans í Kópavogi og átti Norðurland vestra tvo fulltrúa í þessari keppni, skagstrendinginn Heklu Guðrúnu Þrastardóttur hjá Hygga Coffee & Micro bakary og Hugbjörtu Lind Möller, sem vinnur í Sauðárkróksbakaríi.

Þessi keppni hefur verið haldin síðan 1998 og er frábær vettvangur fyrir bakaranema til að spreyta sig og öðlast þar með dýrmæta reynslu sem nýtist vel í verklegu lokaprófi og í sveinsprófi. Í ár áttu nemendur að útbúa glæsilegt veisluborð þar sem ýmislegt brauðmeti eins og vínarbrauð og skrautstykki voru í aðalhlutverki og tóku 13 bakaranemar þátt í keppninni. Til að komast áfram úr forkeppninni þurftu nemendur að vera skapandi, vel skipulagðir og framkvæma í samræmi við undirbúninginn. Þeir þurftu að finna sér þema og tengja baksturinn við það. Af þeim þrettán sem tóku þátt voru aðeins sex sem
komust í úrslitin og náðu Hekla og Hugbjört báðar að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni. Það sem var einstaklega skemmtilegt við þessa keppni í ár var að einungis kvenkyns nemar náðu að komast áfram sem hefur ekki gerst í 25 ár því þessi stétt hefur verið karllæg í gegnum árin og því góð þróun hér á ferðinni.

Á heimasíðu Líflands, sem flytur inn Kornax hveiti og er aðal styrktaraðili keppninnar, segir Árni Þorvarðarson, fagstjóri bakaradeildar í Hótel- og matvælaskólanum. "Það er einstaklega skemmtilegt að sjá þá sköpun sem fram fer í keppni sem þessari og fylgjast með því sem nemarnir töfra fram. Listrænir hæfileikar hvers og eins skína í gegn og brauðið og kræsingarnar fanga augað. Það er gaman að sjá hversu mikið keppnin hefur sprungið út, metþátttaka var í ár og framtíðin er björt í faginu,“

Feykir óskar Heklu og Hugbjörtu til hamingju með árangurinn og hlakkar til að fylgjast með þeim í framtíðinni.
Hver veit nema önnur hvor þeirra eigi eftir að eiga Köku ársins einn daginn.

Frá vinstri: Guðbjörg Salvör Skarphéðinsdóttir frá Kökulist var í 2. sæti, Í því þriðja var Lovísa Þórey Björgvinsdóttir frá Bæjarbakaríi og Hekla Guðrún Þrastardóttir hjá Hygge Coffee & Micro bakery sem var í fyrsta sæti. LJÓSMYND: ÁRNI ÞORVARÐARSON.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir