Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki neydd í „hæpinn“ niðurskurð á þjónustu
Það segir sína sögu að í tvígang hafa stjórnvöld orðið að lækka kröfu sína um niðurskurð á heilbrigðisstofnunum í landinu frá því sem að var stefnt. Engu að síður liggur fyrir að starfsemi þeirra hefur verið veikt frá því sem áður var. Eitt gleggsta dæmið um þetta er Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki. Nú liggur fyrir eftir fjárlagaafgreiðsluna að stofnunin verður neydd í það sem sérfræðingar Velferðarráðuneytisins telja sjálfir „hæpinn“ niðurskurð. Þetta er óskiljanlegt, en því miður satt. Það er auðvitað ekki boðlegt að menn afgreiði fjárlög vitandi vits um að þau leiði til „hæpins“ niðurskurðar á svo þýðingarmiklum og viðkvæmum málaflokki sem heilbrigðismálunum.
Í fyrra var farið af stað með afar stórkarlaleg niðurskurðaráform. Því var mótmælt mjög harðlega og viku eftir að þau voru tilkynnt lá fyrir að ekki var þinglegur meirihluti fyrir hinum boðaða niðurskurði í heilbrigðismálunum. Stjórnvöld áttu því ekki annars úrkosta en að draga í land. Því miður var það aðeins gert að hluta til og niðurskurðinum því að hluta aðeins frestað. Þetta var stundarsigur, en ekki fullnaðarsigur.
Skjóta fyrst – spyrja svo
Staðan á Sauðárkróki núna er til marks um að vaðið hafði verið af stað með óhugsuð áform, sem ekki stóðust nokkra skoðun. Í fjárlagfrumvarpinu sem lagt var fram þann 1. október sl. var þannig gert ráð fyrir því að skera ætti niður á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki um tæpar 63 milljónir. Eftir að þessi niðurskurður hafði litið dagsins ljós voru sérfræðingar sendir út af örkinni af hálfu Velferðarráðuneytisins. Eðlilegast hefði auðvitað verið að setja af stað slíka vinnu fyrir fram og ákveða niðurskurðarkröfuna í ljósi efnislegrar skoðunar á starfsemi stofnunarinnar. Það var ekki gert. Menn kusu að skjóta fyrst og spyrja svo.
Þegar sérfræðivinnunni var lokið blasti athyglisvert við, sem hér verður rekið. Tekið skal fram að hér að neðan verður vísað til úttektar sem ráðuneytið sjálft gerði og aðstoðarmaður velferðarráðherra gerði grein fyrir í skýrslu, sem lögð var fyrir fjárlaganefnd Alþingis.
„Mögulegur“ niðurskurður
Talið var mögulegt að spara um 21 milljón, þ.e um þriðjung þess sem ætlunin var að skera niður samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Þó var ráð fyrir því gert að ýmislegt væri skorið burtu sem ekki leiddi til heildarsparnaðar í heilbrigðiskerfinu, heldur tilflutnings á kostnaði frá stofnuninni og til annarra útgjaldaþátta í heilbrigðiskerfinu í heild. Dæmi um það var til dæmis farandlæknaþjónusta. Það blasir við hverjum manni að verði úr henni dregið , þarf fólk að sækja hana annað, með sama kostnaði ríkissjóðs en auknum kostnaði almennings í Skagafirði og víðar.
„Hæpinn“ niðurskurður
Í annan stað var talið að yrði skorið niður um 21 milljón í viðbót yrði að leggja niður eða skerða þjónustu sem teljast mætti hæpið að gera. Þar má ýmislegt nefna, svo sem fækkun lækna, lokun á endurhæfingarhúsi. Enn fremur að sjúkraþjálfarar hættu að vinna á heilbrigðisstofnuninni og draga úr bakvöktum við rannsókn og röngten.
„Ófær“ niðurskurður
Loks var talið ófært að skera niður um 17 milljónir til viðbótar, enda augljóst að slíkt hefði í för með sér mjög mikla þjónustu skerðingu á Heilbrigðistofnuninni. Þar mætti nefna að hætta þyrfti heimahjúkrun um helgar, sömuleiðis að hætti yrði heimahjúkrun til sveita og fækka einbýlum á hjúkrunarrýmum en fjölga fjölbýlum, sem er gagnstætt því sem að hefur verið stefnt.
Samþykktu „hæpinn“ niðurskurð
Þegar yfirvöld stóðu frammi fyrir þessu var auðvitað sjálfgert að hætta við þann hluta niðurskurðarins sem talinn var ófær. Álykta hefði mátt að einnig hefði verið horfið yrði frá því að etja stofnuninni út í niðurskurð sem ráðuneyti velferðarmála, teldi hæpinn. Því var þó ekki að heilsa. Niðurstaðan sem ríkisstjórnin kynnti var sú að draga úr áformuðum niðurskurði um þriðjung. Halda sig sem sagt áfram við niðurskurð sem meðal annars teldist hæpinn. Þetta var svo kynnt í formi breytingartillögu við fjárlögin og létu allir þingmenn stjórnarflokkanna sig hafa það að leggja blessun sína yfir þetta með atkvæði sínu þegar fjárlögin voru afgreidd á Alþingi.
Ekki var byggt á faglegu mati
Þetta er auðvitað mjög hraklegt. Við stöndum núna uppi með það að Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks þarf að skerða með „hæpnum“ hætti niður þjónustu. Hið faglega mat er þannig að litlu haft og fjárhagsrammi stofnunarinnar skorinn svo naumt að til „hæpins“ niðurskurðar mun koma að mati þeirra sem velferðarráðuneytið kallaði til verka.
Þess ber þó að geta að í fjárlögunum var búinn til pottur sem þó er ómögulegt að vita hvernig varð til. Þar eru dálitlir peningar sem einstaka stjórnarliðar eru þegar farnir að ráðstafa úr til kjördæma sinna ! Því fer víðs fjarri að hann dugi til dæmis til að koma í veg fyrir „hæpinn“ niðurskurð á Sauðárkróki. Fjárlagaafgreiðslan mun neyða menn til þess að skera niður með þeim hætti sem sérfræðingar Velferðarráðuneytisins telja sjálfir mjög hæpinn, svo vitnað sé til þeirra sjálfra.
Það er afleiðing þess að menn kusu að ana undirbúningslítið í niðurskurðaráformin. Kusu að skjóta fyrst en spyrja svo.
Einar Kristinn Guðfinnsson alþingismaður
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.