Hefur alla tíð verið mikill sveitamaður og samgróinn sveitinni :: Viðtal við Róar Jónsson 100 ára

Róar Jónsson fyrir utan heimili sitt á Hólaveginum á Sauðárkróki daginn eftir 100 ára afmælið. Mynd: PF. Aðrar myndir úr fórum Róars.
Róar Jónsson fyrir utan heimili sitt á Hólaveginum á Sauðárkróki daginn eftir 100 ára afmælið. Mynd: PF. Aðrar myndir úr fórum Róars.

Á dögunum fagnaði Róar Jónsson á Sauðárkrói aldarafmæli sínu en hann má efalaust telja með hressari mönnum á hans aldri, býr enn heima og sér um sig og heimilið sjálfur. Feykir reyndi að ná á honum á sjálfan afmælisdaginn en greip í tómt þar sem hann hafði brugðið sér í næstu sýslu og þegið heimboð dóttur sinnar og fjölskyldu. Var hann fús til að veita viðtal daginn eftir.

Róar er fæddur 22. júní 1923 á Vatnsleysu í Viðvíkursveit og ólst þar upp og síðar í Garðakoti í Hjaltadal frá 1934. Gerðist hann bóndi á Nautabúi í Hjaltadal og síðan í Grafargerði á Höfðaströnd áður en hann flutti á Sauðárkrók 1970. Kona Róars var Konkordía Rósmundsdóttir, jafnan kölluð „Día“, fædd 13. apríl 1930 á Kjarvalsstöðum í Hjaltadal, lést árið 2014. Saman áttu þau þrjú börn; Hjalta, Sólveigu Öldu og Rósu Elísabetu.

Undirritaður hefur alla tíð vitað af Róari á Hólaveginum án þess að þekkja hann nokkuð eða hans hagi og vissi ekki við hverju mætti búast af því samtali sem í vændum var. Hugsaði ég um öll þau viðtöl sem sjónvarpsfólk tekur af sama tilefni þar sem viðkomandi afmælisbarn er spurt staðlaðra spurninga um heilsuna, hvað sé gert í tilefni dagsins og hverju megi þakka þetta langlífi. Og oftast er reynt að tala það hátt að viðmælandinn heyri spurningarnar. Hafði ég undirbúið mig undir þvílíkt en annað kom á daginn. Róar er heilsuhraustur og heyrir ágætlega með hjálp heyrnartækja en hann kvartar yfir því að sjónin sé ekki nógu góð. Ekki þarf hann að styðjast við göngustaf þó hann sé innan seilingar, það sást þegar hann var spurður hvort hann treysti sér til að ganga með undirrituðum út í garð í myndatöku. Hann spratt upp úr stólnum og hljóp út.

En fyrsta spurningin var borin fram: Hvað gerðir þú í tilefni dagsins? „Ekkert! Ja, það er reyndar ekki satt, dóttir mín sem býr vestur í Húnavatnssýslu bauð okkur í mat. Sólveig Alda á Njálsstöðum.“

Og hvernig er heilsan? „Heilsan er bara góð eftir aldri. Ég bý einn en dóttir mín sefur hérna. Verður maður ekki að reyna að sjá um sig sjálfur eins og maður getur. Ég er ekki í neinum vandræðum með húsverk. Fyrstu búskaparárin mín í sveit var ég með gamla foreldra mína og eitt kjörbarn, þar lærði ég ýmislegt. Já blessaður vertu, það er enginn vandi að hræra í grautarpotti,“ segir Róar „Ég reyni að halda þrifalegu inni og elda minn mat.“

Ég sé strax að hér getur orðið skemmtilegt spjall án staðlaðra hundraðáraafmælisspurninga. Því er tilvalið að ferðast aftur í tímann og forvitnast að einhverju leyti um lífshlaupið og byrjum fyrir hundrað árum.

17 ára, ungur og myndarlegur maður.„Ég er fæddur og uppalinn á Vatnsleysu í Viðvíkursveit til ellefu ára aldurs, þá flytja foreldrar mínir í Garðakot og búa þar í 14 ár en þá vildi ég fara að búa sjálfur. Ég samdi við foreldra mína um að ég tæki bara við búinu og sæi um þau til hinstu stundar. Svo flutti ég í Nautabú og bjó þar í tíu ár. Þá flutti ég þaðan og kaupi kot á Höfðaströnd, Grafargerði, og bjuggum þar í tólf ár en þá var bústofninn orðinn svo stór, eða jörðin of lítil, og enga almennilega jörð að fá sem mig langaði í. Þær voru ekki á lausu á þessum tíma, svo þá var ekkert annað í boði en að fara með þessum uppflosnuðu bændum á mölina,“ segir Róar sposkur á svip en á Sauðárkrók flutti fjölskyldan árið 1970. „Og hér hef ég búið í þessum kofa síðan,“ bætir hann við en kofinn sá arna er langt frá því að standa undir þeirri lýsingu.

Á Króknum fór Róar að vinna hjá Hauki Stefánssyni málara og lét hann sig dreyma um að mennta sig í þeirri iðn en aðstæður buðu ekki upp á slíkt. „Ég var tvö sumur hjá Hauki og ætlaði mér að verða húsamálari en þá var ég með börn og gamalmenni og hvernig átti ég að fara frá því? Það var ekki hægt að fara í iðnskóla,“ útskýrir hann. Síðar vann Róar sem afgreiðslumaður í byggingavörudeild Kaupfélagsins á Eyri og margir muna eftir honum þar. „Já, ég var nefnilega kallaður viðbjóðurinn,“ laumar Róar út úr sér og hlær en auknefnið kemur til af því að hann bauð við til sölu í timburdeildinni.

Pólitískt viðrini

Þegar talið berst að öllum þeim þjóðfélagsbreytingum og tækniþróun sem átt hafa sér stað á langri æfi kemur í ljós að bóndinn blundar sterkt í Róari því þangað sækir hann efnið í samanburðinn þegar spurt er um hvar mestu breytingarnar megi finna. „Já sjáðu, nú er vandi á höndum. Ég hef lifað allan þennan skala, frá orfi og hrífu, skóflu og gaffli, upp í hátæknivélar. Þetta er svo ótrúleg framför. Heyskapur í fyrrasumar hefði aldrei gengið upp ef ekki hefði verið rúllubúskapur. Bara tveir þurrkdagar í einu og svo rigning.“ Það má með sanni segja að þessi ábending Róars á við rök að styðjast því undirritaður hafði þá fyrr um daginn orðið vitni að því að tún í nágrenni Sauðárkróks var slegið fyrir hádegi og um kvöldmatarleytið var búið að pakka töðunni í skjannahvíta rúllubagga.

Þegar samtalið við Róar átti sér stað voru 17. júní hátíðahöld nýliðin þar sem lýðveldisstofnun Íslands 1944 er hvarvetna minnst og því hefur Róar lifað nokkur árin undir danska kónginum. Hvernig var þegar verið var að stofna íslenska lýðveldið. Manstu það?

Óvíst hve gamall Róar er á þessari mynd.„Já, það voru gleðistundir í brjósti manns. Maður reyndi að njóta þess dags, 17. júní, eins og kostur var,“ svarar hann og segir daginn hafa verið mikið stolt fyrir Íslendinga.

Þú hefur ekki spáð í það hvort það væri betra fyrir okkur að vera undir Danaveldi nú, eða ESB, ertu svo pólitískur? 
„Nei, ég er pólitískt viðrini og skipti mér ekki af pólitík. Ég kýs bara eftir eigin höfði, ekki pólitíska flokka, heldur þann sem mér líst skást á og muni gera eitthvað í okkar heimabyggð,“ segir Róar og heldur áfram í öðrum tón og alvarlegri: „Nema þegar kosið var 28. október 2017. Þá vildi svo skemmtilega til að það var hundrað og fertugasta ártíð föður míns. Hann var harður Framsóknarmaður og honum til heiðurs þá kaus ég Framsókn.“

 

Ort fyrir augnablikið

Eins og komið hefur fram er Róar fæddur og uppalinn í Skagafirði og búið þar alla sína æfi og segist unna héraðinu af öllu hjarta. Útivistin heillaði og fjöllin oft gengin. „Ég var nú óttaleg fjallageit. Var að hlaupa á Vesturfjöllin og náttúrulega fjöllin í Hjaltadal meðan ég var þar en þau ná niður að bæjum og maður síhlaupandi þar uppi að leita að grenjum en ég þekkti fjöllin þarna vestan í dalnum út og inn,“ segir hann en áréttar að hann hafi ekki verið grenjaskytta heldur að leita að grenjum fyrir þær.

Náttúrufegurð héraðsins er Róari hugleikin og margoft kallað fram vísur sem hafa orðið til í augnablikinu. „Skagafjörður er ákaflega víðfeðmt hérað, eins og allir vita, frá Hofsjökli og út fyrir Drangey og einhvern tímann var ég staddur í góðu veðri fram á Arnarstapa á Vatnsskarði og sá yfir fjörðinn í björtu og fallegu veðri. Dalirnir fram skáru sig úr og allt var bjart og gott og þá urðu til tvær vísur í huga mínum um fjörðinn okkar,“ segir Róar og er fús til þess að leyfa lesendum að njóta.

Blasir við þér byggðin fríða
og Blönduhlíðarfjöllin há.
Allt sem eina sveit má prýða
af Vatnsskarðinu muntu sjá.

Eyjar, sundin, ögurblá
yndis stundir veita.
Þó eru fegri fjöllin há
sem fjörðinn okkar skreyta.

Hjónin Róar og Día á góðri stund. Það fer að síga á seinni hluta viðtalsins svo komið er því að spyrja hvort hinn lífsreyndi maður hafi einhver góð ráð til fólks í lokin. „Ja, guð hjálpi þeim sem reyna að vera með einhver ráð til fólks. Nú eru allir orðnir háskólamenntaðir og getur varla nokkuð skitið án þess að hafa háskólapróf. Ég hef nú bara barnaskólamenntun og hún var nú ekki beysin, var frá 15. október og sigtað á það að prófin yrðu haldin síðasta vetrardag. Sex mánuðir takk.“

Það er þá skóli lífsins sem hefur kennt þér mest? 
„Já, það er besti skóli sem til er og þar hefur maður lært mikið. Ég hef alla tíð verið mikill sveitamaður, samgróinn sveitinni og er enn,“ segir Róar ákveðinn en hann daprast aðeins er hann rifjar upp þegar hann var ekki lengur fær um að setjast upp í bílinn og bruna af stað, þangað sem hugurinn stóð til.

„Það var þannig að þegar ég hætti að geta keyrt, sá svo illa, að þá var tekinn af mér helmingurinn,“ rifjar hann upp en sjónin, eða sjóndepran öllu heldur, hefur komið í veg fyrir fleiri framkvæmdir. „Ég var lengi vel að reyna að skrifa ýmislegt en svo varð ég að hætta því, því þessir stafadjöflar voru eins og óþægir krakkar, ýmist stukku þeir upp í loftið eða drulluðust niður fyrir línuna og þá sagði ég við sjálfan mig að það væri best að hætta þessu.“

Meðal þess sem Róar átti skrifað voru fjórar bækur af kveðskap hans en segir að þeim hafi verið hent, sem væri bara jákvætt. Undirritaður er nú ekki sammála þeirri skilgreiningu því vísurnar eru alveg ljómandi góðar sem bornar voru á borð, andstætt lítillæti skáldsins. „Það hefði verið gaman að geta gert góðar vísur en þetta eru allt börn augnabliksins.,“ segir hann um leið og hann er rukkaður um meiri kveðskap úr hans fórum.

„Ja, það var í desember þegar tíðindin stóru gerðust í veðrinu sem sleit m.a. niður allar línur og drap hross, þá voru gestir hér og við að spila inni í stofu. Það var skýjað og drungalegt en allt í einu kemur sólargeisli á gluggann, ég stekk upp úr stólnum og svo varð vísa til,“ segir hann og dregur úr hugarfylgsni sínu þessa:

Í hjarta mínu fögnuð finn
fer að léttast sporið.
Gægist sól á gluggann minn
og gefur von um vorið.

„Og seinna þegar ég var hér úti á stéttinni var komin sól á Vesturfjöllin.“

Þá nálgast vorið Norðurland
nóttin styttist óðum.
Þegar sólar bjarma band
blikar á norðurslóðum.

Í grasatínslu á Þverárfjalli árið 1990Og enn er von á vísu sem til varð á augabragði sem afleiðing aðdáunar á náttúrunni.
„Við gengum mikið hjónin og vorum eitt sinn stödd niður á sandi um Jónsmessuleytið, og þvílík dýrð, heiðríkur himinn og sjórinn eins og spegill. Sólarhálfmáni bungaði upp úr sjónum og varpaði svo skemmtilega litum á efstu brúnir Tindastóls. Og þá varð náttúrulega til vísa á slaginu.“

Bjarmi af sól á brúnum Stólsins
blundar hafið rótt.
Ræð ég fátt á rúnum pólsins
röm er sumarnótt.

Það er nú ekki ónýtt að enda samtalið á þessum nótum en áður en við kvöddumst og ég lét í það skína að ég væri komið með nóg efni í langt viðtal hélt Róar að hann hefði svo sem ekki frá miklu að segja. „Þetta er nú búið að vera viðburðalítið líf, hefur liðið eins og lygn lækur og er það ekki bara best?“

Áður birst í 26. tbl.  Feykis 2023

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir