Hátíðarsýning á Grease milli hátíða
Á milli jóla og nýárs verður árshátíðarsýning Húnavallaskóla á söngleiknum Grease sýnd í Félagsheimilinu á Blönduósi. Sýningin verður mánudaginn 29. desember klukkan 20:00.
Dagskráin verður tvískipt, fyrir hlé mun hljómsveitin Rúllunetið spila og Big Band gamalla nemenda skólans eða Stórsveit Húnvetninga mun leika nokkur lög. Eftir hlé verður svo söngleikurinn sýndur. Þessi skemmtun höfðar ekki síður til fullorðinna en barna og eru allir, ungir sem aldnir hvattir til að láta ekki þennan ágæta menningarviðburð í svartasta skammdeginu fram hjá sér fara. Húsið opnar klukkan 19:30 og hefst dagskráin klukkan 20:00. Inngangseyrir verður krónur 1500 fyrir 12 ára og eldri og krónur 500 fyrir 6 – 12 ára. Frítt verður fyrir yngri en 6 ára. Rétt er að benda á að ekki verður hægt að greiða með kortum. Allur aðgangseyrir fer í að greiða kostnað vegna skemmtunarinnar en ef einhver afgangur verður þá rennur hann í ferðasjóð nemenda 10. bekkjar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.