Háskólinn á Hólum eykur samstarf við aðra háskóla

Íris Dögg Björnsdóttir brottfluttur Skagfirðingur nýráðin mannauðsráðgjafi Háskólans á Hólum og Listaháskólans. Aðsend mynd.
Íris Dögg Björnsdóttir brottfluttur Skagfirðingur nýráðin mannauðsráðgjafi Háskólans á Hólum og Listaháskólans. Aðsend mynd.

Sem lítill, en framsækinn háskóli hefur Háskólinn á Hólum beitt sér fyrir auknu samstarfi við aðra háskóla. Með því er hægt að samnýta styrki skólanna og minnka kostnað beggja aðila. Fyrsta samstarfsverkefnið í þessari umferð var á sviði mannauðsráðgjafar. Þar sáu bæði Háskólinn á Hólum og Listaháskóli Íslands möguleika á að bæta þjónustu til starfsmanna sinna með samstarfi á milli skólanna. Því ákváðu skólarnir að ráða í nýja stöðu, þar sem skólarnir deila mannauðsráðgjafa.

Mannauðsráðgjafinn mun hafa megin starfsstöð á skrifstofu Listaháskólans, en kemur einnig í reglubundnar heimsóknir heim að Hólum. Um 60 manns sóttu um starfið og stjórnendur beggja skóla voru sammæltir um að Íris Dögg Björnsdóttir væri sú sem þeir vildu fá með sér í lið. Íris hóf störf 26. september og kemur í sína fyrstu heimsókn heim að Hólum 5. október.

„Þegar við byrjuðum ráðningarferlið sögðum við að draumastaðan væri að fá til okkar brottfluttan Skagfirðing, sem byggi á höfuðborgarsvæðinu. Við duttum því heldur betur í lukkupottinn þegar í ljós kom að hæfasti umsækjandinn var einmitt uppalin í Lýtingsstaðahreppi og hlakkaði til að koma aftur í fjörðinn fagra“, segir Edda Matthíasdóttir, framkvæmdastjóri Háskólans á Hólum.

Háskólinn á Hólum hefur einnig ráðið Þóreyju Þórarinsdóttur sem náms- og starfsráðgjafa. Hún mun vinna meginhluta starfsins í fjarvinnu, með reglubundnar heimsóknir heim að Hólum. Þórey hóf störf um miðjan september og hefur nú þegar komið í heimsókn heim að Hólum til að hitta nema skólans og samstarfsfólk. Þórey vinnur einnig í sömu stöðu við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Þó þarna sé ekki um deilda stöðu að ræða, kemur ráðningin eftir óformlegt samstarf við Landbúnaðarháskólann. Hvorugur skólinn gat boðið fullt starf til umsækjenda, en benti í staðinn umsækjendum á að tilsvarandi hlutastarf væri einnig laust hjá öðrum háskóla.

„Þessar ráðningar eru gott dæmi um að háskólar geta leyst áskoranir sínar með auknu samstarfi, hvort sem um er að ræða formlega samstarfssamninga eða óformlegt samstarf,“ segir Edda.

Eftir að þessar samstarfsráðningar voru komnar í framkvæmd, tilkynnti ráðuneyti Háskóla, iðnaðar og nýsköpunar um að 2 milljarðar verði settir í Samstarfssjóð háskólanna. Sjóðnum er, eins og nafnið ber til kynna, ætlað að efla samstarf á milli háskólanna og fellur því vel inn í stefnu Háskólans á Hólum.

„Við fögnum að sjálfsögðu áherslunni á aukið samstarf skólanna og höfum nú þegar hafið viðræður við fleiri háskóla um samstarf bæði innan stjórnsýslu og kennslu. Samstarfið við Listaháskólann hefur komið vel út og við vorum strax farin að ræða aðra möguleika á samstarfi. Það er ekki ólíklegt að við fáum fyrstu heimsókn frá nemum þeirra innan skamms. Við sjáum einnig góða möguleika á samstarfi við Háskólann á Akureyri til að styrkja háskólastarfsemi á Norðurlandi, og eigum von á fulltrúum þeirra og fleiri háskóla í heimsókn til okkar á næstu vikum,“ segir Edda.

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir