Háskóli Íslands og Háskólinn á Hólum sameinast um háskólasamstæðu
Háskóli Íslands (HÍ) og Háskólinn á Hólum (HH) hafa komið sér saman um grunnatriði stjórnskipulags háskólasamstæðu. Um er að ræða stórt skref í átt að sameiningu skólanna tveggja í háskólasamstæðuna, sem fýsileikagreining gaf til kynna að yrði farsælt skref.
Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins fagnar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra þessum mikilvæga áfanga. „Það eru 16 ár frá því að síðasta sameining háskóla átti sér stað og löngu tímabært er að sameina fleiri skóla. Við erum of fámenn þjóð til að reka sjö háskóla og það að við dreifum kröftum okkar svo víða bitnar á gæðum námsins og nemendum sem eiga betra skilið. Samstarfið við háskólana tvo í þessu ferli hefur verið afar gott og ánægjulegt að sjá að þeir hafa báðir nálgast þetta stóra verkefni með opnum huga og vilja til að leysa þau úrlausnarefni sem komið hafa upp. Háskólasamstæða er þekkt erlendis og nálgun sem mun vonandi efla menntakerfið hérlendis,“ segir Áslaug Arna en nánar er sagt frá málinu á vef stjórnarráðsins >
Mikil uppbygging áætluð á Hólum og Sauðárkróki
Feykir hafði samband við Hólmfríði Sveinsdóttur, rektor Háskólans á Hólum, og bað um viðbrögð. „Háskólasamstæða Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum er að mínu mati framfaraskref fyrir háskólastarfsemi í landinu. Hún bindur saman landsbyggðina og höfuðborg-arsvæðið á sterkan hátt. Háskólinn á Hólum hefur mikla sérstöðu á meðal íslenskra háskóla þar sem hann byggir undir mikilvægar framtíðar atvinnugreinar sem stundaðar eru að miklu leiti á landsbyggðinni eins og lagareldi, ferðaþjónusta í dreifbýli og íslenski hesturinn. Með öflugu samstarfi innan háskólasamstæðunnar gefst tækifæri til að efla enn frekar nám og rannsóknir á þessum fræðasviðum og byggja undir þær á þverfaglegum grundvelli.
Til dæmis verður stefnt að því að bjóða upp á þverfaglegar námsleiðir eins og fiskeldi með áherslu á umhverfisfræði, ferðamálafræði með áherslu á fornleifafræði eða reiðmennsku og reiðkennslu með áherslu á viðskiptafræði.“
Hólmfríður segir að eins gefist Háskóla Íslands mikilvægt tækifæri til að efla nám og rannsóknir í tengingu við öfluga matvælaframleiðslu á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs. „Mikil uppbygging á sérhæfðu kennslu- og rannsóknahúsnæði á Hólum og á Sauðárkróki er áætluð samhliða myndun háskólasamstæðunnar til að standa undir eflingu náms og rannsókna tengdum lagareldi, ferðaþjónustu og íslenska hestinum. Það má því búast við töluverðri fjölgun starfsfólks og þá sér í lagi nemenda með tilkomu háskólasamstæðu í Skagafirði en háskólasamstæður hafa verið myndaðar víða erlendis til að efla hinar dreifðu byggðir,“ segir Hólmfríður að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.