Háskóladagurinn á laugardaginn kemur

Háskóladagurinn verður haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur laugardaginn 20. febrúar kl. 11– 16. Háskólinn á Hólum mun kynna námsframboð sitt, nemendur og kennarar verða á staðnum til að svara fyrirspurnum. Einnig verður formaður Stúdentafélags Hólaskóla í básnum og boðið verður upp á veitingar sem tengjast starfsemi skólans.

Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst, Háskólinn í Reykjavík, Landbúnaðarháskóli Íslands og Listaháskóli Íslands verða einnig í Ráðhúsinu. Kynning Háskóla Íslands verður á Háskólatorgi, í Gimli og í Odda. Í Norræna húsinu bjóða norrænir háskólar upp á kynningu á framhaldsnámi í Danmörku og Svíþjóð.

Það er mikilvægt fyrir stúdenta að kynna sér vel hvað háskólarnir hafa upp á að bjóða. Að velja sér háskólanám geta verið mikil tímamót. Sérhæfing Háskólans á Hólum er einstök. Náið samstarf við atvinnulíf, gæði í kennslu sem og sérhæfðar rannsóknir eru einkennandi fyrir skólann. Við Háskólann á Hólum eru margar leiðir fyrir nemendur sem vilja starfa við framtíðaratvinnuvegi Íslands og þekkt er að Hólafólk er eftirsóttir starfskraftar.

Skólinn er persónulegur, það þekkjast flestir með nafni, einnig þeir sem eru í fjarnámi. Aðstaðan í háskólasamfélaginu er til fyrirmyndar,  mjög góð þjónusta er í boði á staðnum og háskólasamfélagið á Hólum er einstaklega fjölskylduvænt. Það er ástæða fyrir því að talað er um að fara heim að Hólum.

Verið velkomin í Ráðhús Reykjavíkur, laugardaginn 20. febrúar næstkomandi og kíkið á fjölbreytt úrval námsleiða sem háskólarnir bjóða upp á.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir