Hannesarskjólið á Nöfum vígt
Á Nöfum austan kirkjugarðs fór fram formleg vígsla Hannesarskjóls í gær. Er það hlaðinn, skeifulaga veggur úr torfi og grjóti, reistur til heiðurs Hannesi Péturssyni skáldi og rithöfundi. Skjólið er fallega hlaðið af Helga Sigurðssyni hleðslumeistara.
Við vígsluna hélt Viggó Jónsson, varaformaður atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar Svf. Skagafjarðar, stutta tölu og Sigurður Svavarsson frændi skáldsins sagði frá tilurð þess að skjólið varð til en hugmyndin birtist Sigurði í draumi. Einnig flutti hann kveðju frá Hannesi sem hljómar svo:
Kæru Skagfirðingar.
Ég þakka heilshugar þá ræktarsemi og sæmd sem mér hefur nú verið sýnd hér á þessum stað.
Ég get fullvissað ykkur um að flesta daga stend ég í huganum í gömlum sporum mínum hér á Nöfunum og skyggnist yfir svið æskudaga minna. Ekkert landslag hef ég litið sem snart hug minn og hjarta eins varanlega og Skagafjarðarhérað þegar það ljómar frá hafsbrún og fram til inndala. Ég vona að sá mikli sjónhringur fylgi mér jafn lengi og ég veit til sjálfs mín.
Ég óska ykkur, kæru sýslungar, fremdar og velgengni um allar stundir.
Hannes Pétursson.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.