Hálka á vegum og víða þoka vestan Þverárfjalls

Færð á vegum á Norðurlandi vestra upp úr kl. 9 í morgun. SKJÁSKOT
Færð á vegum á Norðurlandi vestra upp úr kl. 9 í morgun. SKJÁSKOT

Vegir eru færir á Norðurlandi vestra en í dag má reikna með slyddu og snjókomu á svæðinu. Það er hálka á flestum vegum sem stendur og því vissara fyrir ferðalanga að fylgjast með veðri og færð á vegum áður en lagt er í hann. Veðurstofan gerir ráð fyrir norðan og norðvestan 10-15 m/sek með slyddu eða snjókomu framan af degi en lægir smám saman og rofar til seinnipartinn. Hiti nálægt frostmarki.

Það er útlit fyrir skaplegt veður aðfaranótt föstudags en reikna má með snjókomu í fyrramálið en hitastigið rís þegar nálgast hádegi, gæti farið í fimm gráður, og þá fer að rigna.

Veðurstofan býður sem sagt upp á bland í poka næstu dagana því það ýmist rignir eða snjóar nú eða að það kemur ekki dropi úr lofti. Helgarveðrið er því væntanlega alls konar og á mánudaginn stígur hitinn og spáð rigningu og sunnan hvassviðri.

Á Umferðin.is má sjá að það er hálka á nánst öllum vegum á Norðurlandi vestra og yfir Öxnadalsheiði og Holtavörðuheiði. Éljagangur er í Blönduhlíð og Norðurárdal í Skagafirði og í Útblönduhlíð er snjóþekja eða krap á veginum. Þá er éljagangur á Þverfárfjalli og Laxárdalsheiði. Í Húnavatnssýslum og á Vatnsskarði er þoka og því vissara að fara að öllu með gát.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir