Hættulegur stígur
Íbúi í Túnahverfi á Sauðárkróki kom að máli við blaðamann Feykis.is til að vara við slysahættu á stígnum sem myndast hefur í brekkunni neðan við spítalann á Sauðárkróki. Hann segist tvisvar hafa gengið fram á börn sem hafi slasast eftir að hafa reynt að hjóla niður eftir stígnum og í annað skiptið var um ansi slæmt slys að ræða þar sem stúlka hafði endað úti í Sauðá og handleggsbrotnað.
Stígurinn liggur austan frá bílastæðum við Heilbrigðisstofnunina og niður að göngubrú sem er til móts við Skagfirðingabúð og Ábæ eða þar um bil. Stígurinn er ekki á skipulagi en eins og oft vill verða þá hefur einhver ákveðið að arka stuttu leiðina í búðina eða sjoppuna og síðan hefur með tímanum myndast stígur þegar aðrir hafa gengið í sömu sporin.
Nú er algengt að nemendur í Fjölbraut notist við stíginn, krakkar jafnvel hjóla þarna niður og eldra fólk vill spara sér sporin.
Stígurinn er ekki svo brattur efst en verður launbrattur neðst og þar er hann hreinlega hættulegur.
Spurningin er hvort ekki sé rétt að bregðast við aðstæðum og annað hvort lagfæra stíginn eða hreinlega loka honum svo koma megi í veg fyrir að fólk slasist.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.