Groundhog Day!

Það er ekki alltaf gaman í boltanum!

Tindastólsmönnum hlýtur eiginlega að líða eins og persónu Bill Murray í kvikmyndinni Groundhog Day sem upplifði aftur og aftur sama ömurlega daginn þar sem allt endurtók sig. Í gær tóku Stólarnir á móti KS/Leiftri og eins og svo oft í sumar fór allt í kaldakol í blálokin. Gestirnir gerðu sigurmarkið á 93. mínútu og 1-2 tap því staðreynd.

Það var kalt á vellinum en aðstæður þó ágætar og fjölmargir áhorfendur, kannski helst til of mikið af stuðningsmönnum gestanna miðað við heimamenn. Leikurinn hófst með látum. Tindastólsmenn höfðu fært Bjarka Má framar og Sævar stjórnaði vörninni og þetta svínvirkaði framan af leik. Gestunum gekk illa að eiga við baráttuglaða Stóla sem voru greinilega til í tuskið að þessu sinni. Það leið ekki á löngu þar til Ingvi Hrannar kom heimamönnum yfir með ágætu marki eftir skot frá fjærstöng. Tindastólsmenn sóttu áfram enda hefur það verið vandamál að ná og halda góðri forystu. Gestirnir komust þó betur inn í leikinn eftir því sem leið á hálfleikinn en heimamenn klárlega betri. 1-0 í hálfleik.

Tindastólsmenn voru áfram sókndjarfir í upphafi síðari hálfleiks. Pálmi spændi af sér andstæðingana á kantinum en ekki tókst að nýta ágæta möguleika sem sköpuðust. Vendipunkturinn í leiknum var síðan þegar Davíð Rúnars sendi boltann inn fyrir vörn gestanna þar sem Ingvi Hrannar var á auðum sjó. Hann tók sér of góðan tíma í náðarhöggið og varnarmanni tókst að trufla hann um leið og hann ætlaði að setjann framhjá markmanni gestanna. Á 76. mínútu lét gömul grýla á sér bera. Raggi Hauks fékk boltann rétt fyrir utan vítateig Tindastóls, náði góðri hreyfingu og lét Sævar Péturs brjóta á sér rétt innan teigs og síðan hamraði kappinn boltann í markið úr vítaspyrnunni. Staðana orðin 1-1 og Stólarnir urðu að gjöra svo vel að sækja til sigurs.

Við þetta opnaðist leikurinn uppá gátt og bæði lið fengu ágæt færi til að komast yfir. Marri kom inn fyrir Bjarka sem var búinn með bensínið. Gísli Sveins varði frá gestunum í dauðafæri en á 93. mínútu kom hann engum vörnum við þegar Stólarnir gerðu sig seka um slæm varnarmistök og gestirnir réðu sér vart af kæti. Davíð Rúnars náði að skapa sér eitt hálffæri áður en ágætur dómari leiksins flautaði af en skotið var veikt. Lokatölur 1-2.

Nú eru tvær umferðir eftir af mótinu og ljóst að Tindastólsmenn verða að sigra báða leiki sína ef þeir ætla að halda sæti sínu í deildinni. Næsti leikur er gegn Magna Grenivík en lið Magna er í næsta sæti fyrir ofan Stólana og síðasti leikurinn er hér heima gegn Hvöt frá Blönduósi. Flestir eru sammála um að liðið hafi alls ekki sýnt hvað í því býr í sumar en það verður ekki horft framhjá því að markaskorun er aðal vandamál liðsins en Tindastóll hefur aðeins gert eitt mark að meðaltali í leik það sem af er móti. En það er allt hægt í fótbolta og Tindastóll er ekki fallinn - það er enn von!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir