Grímur Atlason sendir Skagfirðingum tóninn um leið og hann yfirgefur VG

Grímur Atlason, sveitastjóri Dalamanna, sendir Skagfirðingum heldur betur tóninn í bloggi sínu á Eyjunni í gær. Eru það helst Vinstri Grænir og framsóknarmenn sem hann agnúast út í og kallar hann baráttu Jóns Bjarnasonar á móti umbótum eins og hann orðar það hámark skagfirskunnar. Grímur hefur nú yfirgefið VG.
Við skulum gefa Grími orðið ; -Ég var í sveit í skagafirðinum á 8. áratugnum. Það var reglulega gaman. Var síðan einu sinni sendur þangað  í byrjun 9. áratugarins og var það ekki jafn gaman því ég strauk á 3. degi. Mér finnst stemming 9. áratugarins hafa haldið sér í Skagafirði. Þar virðast margir sjá heiminn talsvert útfrá sínu kaupfélagi og sínum litla hring. Andi Sambandsins ræður þar ríkjum þegar kemur að stjórnmálum og fyrirtækjarekstri.

Skagfirðingar ályktuðu eftir hrun að opinber störf í Skagafirði væru dýrmætari en annar staðar á landinu. Gamli Hóla rektorinn tók undir þetta í kosningabaráttunni fyrir síðustu Alþingiskosningar þegar hann sagði að skera ætti niður á öllum stöðum nema í NV-kjördæmi. Barátta hans á móti umbótum  í stjórnsýslunni eru síðan fullkomin birtingarmynd skagfirskunnar.

Framsóknarflokkurinn galt afhroð á SV-horninu hvar 2/3 íbúa landsins búa í kosningunum á laugardaginn. Flokkurinn hlaut 4% atkvæða sem verður að teljast verulega vondur árangur. Það er helmingur þess fylgis sem áður var verst. Guðmundur Steingrímsson þingmaður flokksins hafði af þessu miklar áhyggjur og gagnrýndi forystu flokksins og þá aðallega formanninn. Skipti þá engum togum að Skagfirðingar risu upp og báðu hann ýmist að segja af sér eða að ganga aftur í Samfylkinguna.

Það virðist vera nokkur lenska hjá framsóknarmönnum í Skagafirði að nota skammaryrðið „Samfylkingin“ um þá sem eru þeim ekki þóknanlegir. Þetta á einnig við um framsóknararminn í VG. Ég á ótal fjölpósta frá skagfirsku framsóknarklíkunni í VG hvar þeir óska þess heitast að ég fari aftur í Samfylkinguna – enda sé ég óalandi og óferjandi að þeirra mati. Daður mitt við ESB ku hafa kostað flokkinn hreinan meirihluta í NV-kjördæmi – eins og kosningastjóri flokksins  benti á í einu af þessu fjölbréfum. Í framhaldi af þessu stórtapi flokksins í NV-kjördæmi stóð einn Skagafjarðarbersinn upp á flokksráðsfundi sl. haust og bað mig um að yfirgefa flokkinn og fara aftur heim í Samfylkinguna.

Skagfirðingar í rauðgrænum dulbúningi geta loks tekið gleði sína á ný. Ég yfirgaf þeirra réttháa skip um helgina. Ég finn hins vegar til með skynsömu fólki sem vill vel en þarf að sitja undir þessu bulli dag eftir dag.

Því skal síðan haldið til haga að aldrei bauð ég mig fram fyrir Samfylkinguna eða gegndi þar neinum trúnaðarstörfum. Þann tíma sem ég var þar reifst ég talsvert um umhverfis- og byggðarmál .  Ég þekki hins vegar mann sem bauð sig fram fyrir Samfylkinguna en yfirgaf hana þegar hann fékk ekki sætið sem hann stefndi á. Sá maður er nú leiðtogi helmings framsóknarmanna í Skagafirði og stjórnar landbúnaði og sjávarútvegsmálum þjóðarinnar. Líklega er gamli Giftstjórinn á Sauðárkróki kátur með það…

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir