Gríðarstór bergfylla féll úr Ketubjörgum
Hin gríðarstóra bergfylla sem gliðnað hefur smám saman frá Ketubjörgum á Skaga féll í sjó fram sl. laugardag. Það var í mars árið 2015 sem lögreglan í Skagafirði varaði við miklum sprungum sem myndast höfðu í Ketubjörgum á Skaga, nánar tiltekið í Syðri-Bjargarvík. Ekki er vitað til að nokkur hafi orðið vitni að eða orðið var við hamaganginn á laugardaginn fyrr en vegfarandi sá að bergið hafði rýrnað.
Að sögn Ingólfs Sveinssonar, áður bónda á Lágmúla, hefur þetta átt sér stað um ellefu leytið á laugardag en það má sjá á jarðskjálftamælum sem staðsettir eru á Hrauni, skammt fyrir utan staðinn.
Ingólfur segir enn vera nokkrar sprungur í berginu sem væru hættulegar og hvetur hann fólk eindregið til að fara ekki fram að bjargbrúninni. Hann minnist svipaðra atvika m.a. höfðu eitt sinn ferðamenn hlaðið vörðu á Fálkabakkanum, það er hóllinn utan við fossinn, en hún stóð innan við mánuð áður en hún var komin fram af.
Þá segir Ingólfur ekki langt síðan að hrunið hefur þar sem fossinn steypist fram af bjarginu.
Hæðarmælir, sem Ingólfur hafði meðferðis, sýndi að hæðin á bjarginu þar sem fyllan fór nú, sé um 50 metrar svo einhver hefur djöflagangurinn verið enda má ætla að grjótið hafi farið 20-30 metra út í sjó.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.