Gríðarlega sárt

Feykir falaðist eftir viðbrögðum frá Kalla Jóns, þjálfara Tindastóls, eftir skítlegt tap gegn Stjörnunni í Síkinu í gær. Kalli var að vonum ósáttur við lokasekúndurnar í leiknum og taldi greinilega brotið á Stólunum þegar Stjörnumenn stálu boltanum og sigrinum.

„Þetta var gríðarlega sárt, það var greinilega brotið á Don þegar hann náði síðasta varnarfrákastinu og þar áttum við að fá tvö bónusskot sem hefðu getað klárað leikinn. Þess í stað fellur boltinn til þeirra í stuttu færi og þeir setja niður auðvelt skot. Ég set síðan upp allt of flókið dæmi fyrir síðustu sóknina okkar sem gerir það að verkum að við náum boltanum ekki í hendurnar á Cedric og því fór sem fór".

„Ég vil hins vegar hrósa strákunum fyrir frábæra baráttu og okkar besta varnarleik í vetur. Við höfum verið að vinna í nýjum varnaráherslum með nýjum mönnum og strákarnir börðust alveg gríðarlega vel og voru einbeittir í vörninni".

„Nú tekur hins vegar við 10 daga fáránlegt hlé á leikjaplaninu, ekki það fyrsta í vetur og það er alveg óþolandi að fá þessi löngu göt oft inn á tímabilinu. Það væri hægt að spila fjóra leiki í næstu umferð á fimmtudag og föstudag og aðeins fresta leikjum Grindavíkur og Snæfells fram yfir helgi. Það er algjör óþarfi að láta alla deildina stoppa þó að það sé bikarúrslitaleikur og virkilega vont eftir svona stórt skref upp á við hjá okkur að fá þetta hlé, þetta bara verður að breytast til framtíðar litið."

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir