Grannaslagur á Blönduósi í kvöld
Blönduósvöllur, þriðjudaginn 14. júlí kl. 20:00 Hvöt – Tindastóll. Þá er komið að því að grannarnir takist á en í kvöld fer fram fyrri leikur liðanna í annari deildinni í knattspyrnu.
Ljóst má vera að ekkert verður gefið eftir því stigin þrjú eru ákaflega dýrmæt fyrir bæði lið. Hvöt situr nú í 8. sæti með 14 stig, jafnmörg og BÍ/Bolungarvík en Grótta sem situr í 3.sæti er aðeins með tveggja stiga forustu á Hvatarmenn með 16 stig. Hvatarmenn hafa tapað síðustu þremur leikjum þannig að ekkert kemur til greina en sigur í kvöld. Hvöt spilar í kvöld án Nezirs Ohrans markvarðar en hann fékk að líta rauða spjaldið í síðasta leik og tekur út leikbann í kvöld.
Tindastólsmönnum hefur gengið misvel í sínum leikjum en ef þeir sýna sama baráttuanda og var í síðasta leik þá eru þeir til alls líklegir. Í kvöld koma í liðið aftur þeir Stefán Arnar og Bjarki Már eftir meiðsli og Árni Einar sem sagður var hættur að leika með liðinu, er hættur við það og verður með í kvöld. Tindastóll situr í 10. sæti með 9 stig einu stigi á eftir Magna.
Blönduósingar sem og Króksarar eru hvattir til að fjölmenna á Blönduósvöllinn og styðja við bakið á sínu liði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.