Gráhegri á Sauðárkróki
Gráhegri er á vappi og flugi við Sauðárkrók. Blaðamaður Feykis tók af honum myndir þar sem hann sat við Sauðána sunnan við fjölbýlishúsið í Sauðármýri rétt fyrir hádegi.
Hafði hann félagskap af hrafni nokkrum sem var forvitinn um þennan gest. En eins og allir vita getur krummi verið meinlegur vinur og því fékk hegrinn að kynnast þegar krummi gerðist heldur nærgöngull.
Tóku þeir á loft og varð úr eltingaleikur í loftunum sem fleiri hrafnar vildu taka þátt í. Endaði þessi eltingaleikur með því að hegrinn flaug með nokkra hrafna á eftir sér og hvarf hersingin sjónum blaðamanns eitthvert á haf út.
Hegrar eru flækingsfuglar sem eru algengir vetrargestir á Íslandi. Hafa þeir sést af og til norðanlands en kannski ekki algengir inn í þéttbýlinu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.