Gönguklúbburinn þrammar af stað
Fyrsta ganga Göngu- og útivistarklúbbs Skagafjarðar verður laugardaginn 13.mars en þá verður gengið um Hólaskóg.
Mæting er kl. 9.45 fyrir utan Hólaskóla og mun gangan taka 1,5 klukkutíma.
Um er að ræða auðvelda og skemmtilega göngu við allra hæfi og hvetja félagsmenn fólk til að mæta og eiga góða stund saman.
Þá hefur félagið sent frá sér dagskrá gönguhópsins fram í lok júní;
Skipulagið er sett upp með þeim hætti að gengnar eru tvær gönguferðir í mánuði. Reynt er
að blanda saman ferðum með mismunandi erfiðleikastig.
Hér að neðan má sjá dagskrá frá mars til júní en nánari lýsing á leiðunum verður send út seinna. Ef veður eða veðurspá er slæm getur þurft að fella niður ferðir og verður þá sendur út tölvupóstur þess efnis.
Athugið að allar ferðirnar hefjast kl. 10.00 og er mæting 9.45 í hvert skipti. Þátttakendum er bent á að í fjallgöngum felst ávallt tiltekin hætta og eru þátttakendur á eigin ábyrgð í ferðum. Þátttakendur eru ekki tryggðir í ferðum með Göngu- og útivistarklúbbi Skagafjarðar.
Dagskrá mars – júní 2010
13. mars
Draumaganga í Hólaskógi 1,5 klst
- Mæting kl. 9.45 við Bændaskólahúsið á Hólum.
- Mest gengið á sléttlendi, flestum fært.
27.mars
Tindastóll á Einhyrning
- í hæðóttu landi, þátttakendur þurfa að vera í nokkuð góðri þjálfun.
10.apríl
Hofsstaðafjall
- í hæðóttu landi, þátttakendur þurfa að vera í nokkuð góðri þjálfun.
24. apríl
Staðaröxl
- í hæðóttu landi, þátttakendur þurfa að vera í nokkuð góðri þjálfun.
8.maí
Sólheimahnjúkur í Sæmundarhlíð og/eða Kaldbakur
- Gengið í fjalllendi, þátttakendur þurfa að vera í góðri þjálfun.
29. maí
Gengið frá Laufskálarétt og upp á ásinn og niður eftir ásnum
- mest gengið á sléttlendi, flestum fært.
12.júní
Mælifellshnjúkur
- Gengið í fjalllendi, þátttakendur þurfa að vera í góðri þjálfun.
26.júní
Glóðafeykir
- gengið í fjalllendi, þátttakendur þurfa að vera í góðri þjálfun.
Benda má á gönguleiðir sem hægt er að fara á eigin vegum milli skipulagða ferða og nefnum
við til dæmis Hegranesvita, Sauðárgil, Varmahliðarskóg, Borgarsand – allt gönguleiðir sem
eru auðveldar og við allra hæfi.
Ábendingar varðandi útbúnað
Þegar lagt er af stað í gönguferð þá skiptir útbúnaðurinn afar miklu máli. Taka þarf mið af
hversu löng gangan skal vera en það eru samt sem áður alltaf ákveðin atriði sem vert er að
hafa í huga þegar huga skal að gönguferð.
Óhætt er að segja að skóbúnaður sé það sem skiptir hvað mestu máli og oft er sagt að
skórnir séu bestu vinir göngumannsins. Vanda þarf val þeirra og ganga þarf spánnýja skó vel
til áður en farið er á þeim í langa ferð. Æskilegur útbúnaður er sem hér segir;
- Góðir skór
- Hlýir sokkar – aukasokkar
- Hlý nærföt (ekki bómullarföt)
- Peysa til skiptanna
- Vindheldur hlífðarfatnaður
- Húfa og vettlingar
- Legghlífar
- Hælsærisplástrar
- Bakpoki
- Orkuríkt nesti og eitthvað að drekka
- Göngustafir
- Sólgleraugu
- Sólaráburður
- Myndavél
- Sími
- Góða skapið
Þeir sem eru tilbúnir í að vera fararstjórar í einhverri af þessum ferðum endilega sendið okkur
skilaboð. Því fleiri sem koma að þessu því skemmtilegra verður þetta.
Fyrirhugað er að fá fyrirlesara um gönguferðir og útbúnað og verður það auglýst síðar.
Ennfremur væri gott að fá ábendingar frá ykkur um skemmtilegar gönguleiðir !
Bendum ykkur líka á að hægt er að senda póst á póstlistann ef einhver vill fá félagsskap í
gönguferðir sem ekki eru skipulagðar hér.
Við erum með síðu á facebook – Göngu- og útivistarklúbbur Skagafjarðar – þar setjum við
þessar upplýsingar ásamt öðrum upplýsingum sem koma að notum. Þar má einnig setja inn
skilaboð á vegginn um ferðir og annað sem þið viljið koma á framfæri.
Við hlökkum til að sjá ykkur og gangi ykkur vel !
Þeir sem vilja vera á póstlista og fá sendar upplýsingar mega senda póst á asgud@simnet.is eða sivadogg@simnet.is með nafni, heimilisfangi og símanúmeri.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.