Góður sigur Hvatar á Hetti

Kátir Hvatarmenn eftir leik

Hvatarmenn tóku á móti liði Hattar frá Egilsstöðum í 19. umferð í 2. deild karla á Blönduósvelli í dag í sólskini en þó nokkrum norðanvindi. Leikurinn fór rólega af stað en fyrstu hálftímann voru Hvatarmenn meira með boltann og sköpuðu sér nokkur hálffæri í leiknum án þess þó að ógna marki Hattar verulega þó skal geta eins færis. En þá komst Muamer upp hægri kantinn og sendi góðan bolta inn á markteig Hattar en þar var mættur Sigurður Rúnar Pálsson. Hann var hindraður af tveimur leikmönnum Hattar og ekkert varð úr því færi.

Hvatarmenn voru ekki sáttir við dómara leiksins, Þórð Má Gylfason, í fyrri hálfleik og létu skapið hlaupa með sig í gönur og uppskáru þeir einungis tvö gul spjöld. Annað fyrir glórulaust brot og hitt fyrir leikaraskap. Staðan í hálfleik var 0-0.

Bæði liðið sóttu nokkuð á upphafsmínútum síðari hálfleik en það voru gestirnir sem skoruðu fyrsta mark leiksins er Garðar Már Grétarsson skoraði á 52. mínútu. Enn hélt baráttan áfram og tvö gul spjöld litu dagsins ljós hjá Hattarmönnum áður en Muamer Sadikovic skoraði jöfnunarmark Hvatar eftir góða stungusendingu inn fyrir vörn Hattar. Hattarmenn vildu fá dæmda rangstöðu en fréttaritari stóð í sömu línu og aðstoðardómari leiksins og getur staðfest að ekki var um rangstöðu að ræða.

Hvatarmenn áttu nokkur hálffæri og skot á mark gestanna en ekki vildi boltinn inn. Það var örlítið gegn gangi leiksins að Hattarmenn komust aftur yfir í leiknum á 75. mínútu. Þá fékk Jóhann Valur Clausen stungusendingu inn fyrir flata vörn heimamanna, lék laglega á markvörð Hvatar og sendi knöttinn í autt markið. Staðan orðin 1-2 og heimamenn allt annað en ánægðir með stöðuna. Áfram héldu þeir að sækja og uppskáru vítaspyrnu á 89. mínútu er brotið var á Agli Björnssyni eftir að boltinn var sendur inní teiginn frá hægri. Hattarmenn urðu vægast sagt brjálaðir yfir þessum dómi en dómarinn var sannkvæmur sjálfum sér í dómgæslunni og benti á vítapunktinn. Úr spyrnunni skoraði Muamer og jafnaði leikinn. Hans 14 mark í sumar í deildinni og hann er nú orðinn markahæstur ásamt tveimur öðrum.

Við það að jafna leikinn kom auka kraftur í heimamenn og þeir uppskáru sigurmark á 92. mínútu leiksins eftir mikla þvögu í markteig gestanna sem endaði með því að Egill Björnsson skoraði og allt ætlaði vitlaust að vera á vellinum og í áhorfendastúkunni. Egill var síðan borinn af velli rétt fyrir leikslok er hann fékk högg á hnakkann en hann hefur nú jafnað sig á því og verður að teljast hetja leiksins ásamt Muamer.

Hvatarmenn eru nú aftur komnir í 4. sæti deildarinnar með 30 stig en Hattarmenn eru í 6. sæti með 26 stig. Næsti leikur Hvatar er útileikur gegn Reyni þann 4. september kl. 18:30.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir