Góður fundur LH í gær

Formannafundur Landssambands hestamannafélaga var haldin í gær, 28. maí, í húsakynnum ÍSÍ. Fundurinn var vel sóttur en auk formanna og fulltrúa hestamannafélaganna sátu fundinn: stjórn LH, fyrrverandi formenn LH, formaður FHB og formaður FT.

Fyrir hönd Landsmóts hestamanna ehf. mættu: stjórn Landsmóts ehf., framkvæmdastjóri, mótsstjóri og hluti framkvæmdanefndar.

Umræðuefni fundarins var áhrif kvefpestar á Landsmót 2010. Fundurinn hófst með því að Vilhjálmur Svansson dýralæknir og veirufræðingur og Gunnar Örn Guðmundsson héraðsdýralæknir héldu stutt erindi um veikina. Að því loknu voru fyrirspurnir fundargesta úr sal leyfðar.

HÉR má sjá þær spurningar og svör sem dýralæknarnir sátu fyrir.

Á fundinum var samþykkt ályktun til MAST
Formannafundur LH haldinn 28.maí 2010 skorar á Matvælastofnun að hún láti rannsaka með hvaða hætti sjúkdómur sá sem herjar á íslenska hrossastofninn barst til landsins. Þá krefst fundurinn þess að stofnunin leiti þegar allra leiða til að koma í veg fyrir að aðrir sjúkdómar berist hingað. Telur fundurinn að núverandi framkvæmd sjúkdómavarna sé verulega ábótavant.

Einnig var samþykkt ályktun til LH, BÍ og LM ehf.
Formannafundur LH haldinn 28. maí 2010 hvetur stjórnir Landssambands hestamannafélaga, Bændasamtaka Íslands og Landsmóts hestamanna ehf. að hafa eftirfarandi þætti að leiðarljósi við ákvarðanatöku um hvort halda eigi Landsmót hestamanna á Vindheimamelum 2010 í ljósi þess sjúkdóms sem nú herjar á íslenska hrossastofninn:

  •     -  Velferð hestsins
  •     -  Ímynd hestamennskunnar og Landsmóts til framtíðar

Þess má geta að á fundinum unnu formenn einnig í hópum eftir landshlutum þar sem spurningum var svarað um Landsmót  og verða niðurstöður þeirrar hópavinnu kynntar síðar. 

Nk. mánudag, 31. maí kl. 13:00 verður haldinn fundur með fulltrúa landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytis, fagaðilum og hagsmunaaðilum hestamennskunnar. Á þeim fundi verða málefni kvefpestarinnar á Landsmót 2010 rædd til hlítar. 

Í kjölfarið mun stjórn LM ehf. funda og taka ákvörðun um framhaldið, þ.e. hvort halda eigi Landsmót á Vindheimamelum í sumar, hvort fresta eigi því til ársins 2011 eða sleppa því alveg og halda fyrirhugað Landsmót í Reykjavík 2012.

/Landsmót.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir