Góður árangur yngri flokka í körfu
Það hefur verið mikið um að vera hjá yngri flokkunum Tindastóls í körfubolta síðustu vikur. Mjög góð mæting hefur verið á æfingar og árangur okkar krakka er á uppleið og spennandi að fylgjast með því sem eftir er af keppnistímabilinu. Hér kemur yfirlit yfir fyrstu umferð fjölliðamótanna og árangur okkar liða í þeim.
Alls sendir Tindastóll 7 yngri flokka til leiks í Íslandsmótinu auk Unglingaflokks karla. Unglingaflokkurinn hefur nú leikið fjóra leiki, unnið einn og tapað þremur.
Það var 8. flokkur drengja sem reið á vaðið 10.-11. október sl. og kepptu strákarnir í B-riðli í Keflavík. Strákarnir unnu bæði Keflavík og Njarðvík, en töpuðu fyrir liðum Breiðabliks og Fjölnis. Fínn árangur hjá þeim sem halda sér þar með í B-riðli og geta án efa byggt ofan á þennan árangur í næsta móti sem verður 14.-15. nóvember.
8. flokkur stúlkna átti að spila þessa sömu helgi í C-riðli, en óhagstætt veðurfar og veikindi frestuðu mótinu og var það haldið hér á Sauðárkróki núna um síðustu helgi. Þar kepptu stelpurnar við Skallagrím og Hrunamenn. Þær unnu Skallagrím örugglega, en töpuðu með einu stigi fyrir Hrunamönnum, sem komast því upp í B-riðil. Um hreinan úrslitaleik var að ræða um hvort liðið kæmist upp. Næsta mót hjá þessum stelpum er 14.-15. nóvember.
10. flokkur stúlkna spilaði á Akureyri 17.-18. október í C-riðli. Stelpurnar unnu Þórsara örugglega, en töpuðu fyrir B-liði Grindavíkur og Hrunamönnum. Þær verða því áfram í C-riðli í næsta móti sem verður haldið 21.-22. nóvember.
9. flokkur drengja spilaði í D-riðli á Hvammstanga 24. október. Mótherjar strákanna voru Kormákur, Fjölnir B og Grindavík. Tindastóll vann alla sína andstæðinga í þessu móti og flytjast strákarnir því upp í C-riðil í næsta móti sem verður 21.-22. nóvember.
10. flokkur drengja keppti í C-riðli 24.-25. október í Reykjavík. Það sem er athyglisvert við þennan flokk er að þar eru aðeins þrír strákar í 10. bekk, en restin kemur úr 9. og 8. flokkum okkar. Strákarnir voru hársbreidd frá því að komast upp í B-riðil, unnu Val og Breiðablik en töpuðu með þremur stigum fyrir Keflavík. Þeir verða því áfram í C-riðli í næsta móti sem verður 21.-22. nóvember.
7. flokkur drengja keppti í B-riðli í Rimaskóla 24. október. Þeir unnu lið Vals en töpuðu fyrir Fjölni og Njarðvík og halda sér því uppi í riðlinum. Næsta mót hjá þeim veðrur 28.-29. nóvember n.k.
Minnibolti stúlkna keppti hér á Króknum í C-riðli 24. október. Það er skemmst frá því að segja að stelpurnar unnu alla sína andstæðinga örugglega og komust því upp í B-riðil. Næsta mót hjá minniboltastelpunum verður 28.-29. nóvember.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.