Góðgerðartónleikar í minningu Skúla
Skúli Einarsson, bóndi og tónlistarmaður frá Tannstaðabakka í Hrútafirði, lést í nóvember 2021 af völdum krabbameins. Í kjölfarið varð til sú hugmynd að halda góðgerðartónleika í minningu hans til að varpa ljósi á hans tónlistarferil og þá áhrifavalda sem mótuðu hann í gegnum hans spilamennsku. Tónleikarnir verða haldnir í Félagsheimilinu á Hvammstanga laugardaginn 21. október og hefjast kl. 20:00. Hægt er að kaupa miða á adgangsmidi.is eða við dyr.
„Við félagarnir sem voru með Skúla í hljómsveitinni Húnabandið, ákváðum að slá saman í tónleika og minnast hans með þeim hætti. Þar má nefna mig sjálfan, Guðmund Grétar Magnússon, síðan Fróða Snæbjörnsson, Marinó Björnsson og eftirlifandi konu Skúla heitins, Ólöfu Ólafsdóttur sem áttu þátt í því. Hugmyndin var að taka Skúla til fyrirmyndar og leggja okkar af mörkum með því að skipuleggja, æfa og telja í tónleika þar sem tónleikagestir gætu notið ljúfrar kvöldstundar í tali og tónum. Nákvæmlega eins og Skúli hefði viljað hafa það,“ segir Guðmundur Grétar, einn af skipuleggjendum tónleikanna.
„Skúli var duglegur að vekja áhuga fólks á tónlist í kringum sig og í dag standa sumir eftir sem sinna tónlist af ástríðu og má að miklu leyti þakka Skúla fyrir, sjálfur er ég þar með talinn, segir Guðmundur.
Til styrktar Velferðarsjóði Húnaþings vestra.
Tónleikarnir eru til styrktar Velferðarsjóði Húnaþings vestra. Allur ágóði af miðasölunni fer í Velferðarsjóðinn, auk þess höfum við fengið styrki frá fyrirtækjum og erum við afar þakklát fyrir. Velferðarsjóðurinn er sjóður sem Ólöf, ekkja Skúla, hefur styrkt í mörg ár. Tónleikarnir verða okkar framlag í sjóðinn. „Til að byrja með vorum það við Marinó sem hófum undirbúninginn. Velja lög, útvega söngvara, undirleikara, fá styrki og safna fleirum með okkur sem gætu aðstoðað við útsetningar og fleira. Til dæmis má nefna Menningarfélag Húnaþings vestra sem gekk til liðs við okkur og hefur unnið í markaðssetningu og ýmsum þáttum sem vinna þarf fyrir svona tilefni,“ bætir Guðmundur við.
Hljómsveitin Krummafótur annast undirleik ásamt gestaspilurum, þeim Heiðari Inga Árnasyni gítarleikara og Marinó grípur í bassann. Í hljómsveitinni eru þeir Andri Páll söngvari, Fróði Snæbjörnsson hljómborðsleikari, Guðmundur Grétar gítarleikari, Gunnar Sigfús bassaleikari, Oddur Helgi spilar á sax og margt fleira og Óskar Andreas trommuleikari.
Fjöldi Söngvara kemur fram
Fram kemur fjöldi söngvara: Andri Páll, Einar Örn, Elísabet Ólafs, Guðrún Eik, Guðmundur Grétar, Heiðar Ingi, Kristinn Rúnar, Kolbrún Sif, Laufey Kristín, Lóa Kolbrá, Magnea, Oddur Helgi, Rannveig Erla, Ragnar Karl, Sonja Karen og Sveinn Óli.
Síðan er það karlakórinn Lóuþrælar sem stígur á stokk við undirleik Elínborgar Sigurgeirsdóttur. Stjórnandi kórsins er Elín Halldórsdóttir sem syngur einnig einsöng. Aðrir einsöngvarar eru Ólafur Rúnarsson, Birkir Snær Gunnlaugsson og Elvar Logi Friðriksson. Svo eru það kynnar sem eru þau Gerður Rósa Sigurðardóttir, skrifstofustjóri í SKVH og meðhjálpari í Hvammstangakirkju og svo Magnús Magnússon, sóknarprestur á Hvammstanga og pabbi minn.
„Þetta verður sannkölluð tónlistarveisla eins og við er að búast,“ segir Guðmundur Grétar að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.