Góðan daginn Íslandspóstur
Mig langar að leggja inn formlega kvörtun yfir póstþjónustunni á landsbyggðinni. Við búum útí sveit rétt hjá Varmahlíð og Sauðárkrók og hér er ekki lengur keyrður út póstur alla virka daga heldur einungis 3 daga vikunnar aðra vikuna og 2 hina vikuna.
Þegar pósthúsin voru lögð niður til dæmis í Varmahlíð og Hofsósi fyrir nokkrum árum síðan sögðuð þið að þannig væri verið að bæta þjónustuna - þannig gætum við sem búum útí sveit haft samband beint við þann aðila sem væri að keyra út póstinn og komið bréfum og pökkum á hann og sloppið við að keyra inn til næsta pósthúss til að setja í póst.
Núna, semsagt nokkrum árum síðar eruð þið svo hættir að keyra út til okkar frá mánudegi til föstudags eins og þið gerið í þéttbýlum og við þurfum að sætta okkur við að ekki bara fá dagblöð, reikninga og bréf degi seinna en venjulega (aðra hvora viku erum við að fá laugardags, sunnudags, mánudags og þriðjudagsmoggann allt í einu á þriðjudögum ) heldur getum við ekki lengur treyst á póstþjónustuna til þess að fá senda hluti til okkar sem okkur vantar, eins og t.d. lyf fyrir dýrin okkar eða varahluti í vélarnar okkar.
Finnst ykkur þetta ásættanlegt?
Þetta er bara eitt af mörgum fleiri hlutum sem gerir fólki erfiðara fyrir að búa útí sveit. Við þurfum nú þegar að keyra oft langar vegalengdir til þess að sækja okkur alla þá þjónustu sem fólk í þéttbýli hefur greiðan aðgang að, tiltölulega rétt hjá sér og pósturinn er það eina sem getur hugsanlega sparað okkur útréttingar af og til.
Kannski væri nær lagi að hætta að bera út póst í þéttbýli þar sem að fólk getur auðveldlega sótt sér þá þjónustu sem það vantar, jafnvel í göngufæri, - heldur en að hætta að keyra út póst til fólks í dreifbýli sem svo sannarlega treystir ennþá á póstþjónustuna. Ef það þarf endilega að skerða þjónustuna einhversstaðar, meina ég bara.
Er markvisst verið að þvinga fólk til að flytja í þéttbýli?
Eigum við að leggja niður sveitirnar og flytja öll til Reykjavíkur?
Ég vona innilega að þið endurskoðið þessa ákvörðun ykkar og farið aftur að keyra út póstinn til okkar í sveitunum 5 daga vikunnar.
Bestu kveðjur - Inga Dóra
[Pistillinn var fyrst birtur á Facebook-síðu Íslandspósts 24. maí 2016]
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.