Glæsileg árshátíð hjá Grunnskólanum á Blönduósi
Hin árlega árshátíð Grunnskólans á Blönduósi var haldin á föstudaginn. Hófst hún í miklum hríðarbyl á söngleiknum Kræbeibí sem næstum allir nemendur unglingadeildarinnar tóku þátt í. Óhætt er að segja að sýningin hafi staðið undir væntingum og fullur salur fólks virtist mjög sáttur.
Að venju var hin sívinsæla Blönduvisionkeppni haldin. Að þessu sinni voru aðeins þrír keppendur og var það Brynhildur Una í 10. bekk sem vann, en hún söng lagið Einhversstaðar, einhverntíma aftur sem Ellen Kristjánsdóttir gerði vinsælt hér um árið.
Árshátíðargestir, pakksaddir eftir glæsilegt kökuhlaðborð, gátu svo dansað fram til klukkan 1 við tónlist sem DJ Doddi Mix framreiddi. Þórhalla skólastjóri fékk þó að stjórna dansi í um það bil hálftíma eftir að yngstu gestirnir voru farnir heim, en þá spreyttu nemendur sig á kokkinum, skiptidansi, djæf og svensk maskerade. Var ekki annað að sjá en allir skemmtu sér hið besta því gólfið var þéttskipað og einungis örfáir sem ekki tóku þátt.
Árshátíðin tókst í alla staði mjög vel og mega unglingarnir vera stoltir af frammistöðu sinni. Hægt er að sjá fleiri myndir af hátíðinni HÉR
/Húni.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.