Gjöfin dýra - hvað varð um hana? (2. grein af þremur um sjávarútvegsmál)
Útgerðarmenn hafa haldið því fram að meginþorri þeirra veiðiheimilda sem deilt var milli útgerða í upphafi kvótakerfisins hafi „skipt um hendur“. Þær séu þar með „eign“ útgerðanna þar sem þær hafi verið keyptar í lögmætum viðskiptum.
Sé þessi fullyrðing skoðuð nánar kemur í ljós að umrædd „viðskipti“ hafa einkum falist í samruna fyrirtækja þar sem minni sjávarútvegsfyrirtæki hafa runnið inn í stærri samsteypur og lagt með sér kvóta inn í það samlag. Þetta á við öll helstu og öflugustu sjávarútvegsfyrirtæki landsins:
- Samherji: Afrakstur sameiningar og yfirtöku fjölmargra sjávarútvegsfyrirtækja um land allt, þ.á.m. BGB-Snæfells á Dalvík sem átti sex skip og fiskvinnslur á Dalvík, Stöðvarfirði (síðar lokað) og Hrísey (síðar lokað); Söltunarfélagi Dalvíkur; Friðþjófi ehf á Eskifirði (síðar lokað); Fiskimjöli & lýsi í Grindavík; Hrönn á Ísafirði sem gerði út Guðbjörgina ÍS o.fl..
- HB Grandi: Áður HB á Akranesi og Grandi í Reykjavík (áður Bæjarútgerð Rvíkur, Ísbjörninn o.fl.).
- Brim: Áður Útgerðarfélag Akureyrar, Tjaldur á Rifi, o.fl..
- Ísfélag Vestmannaeyja: Áður Bergur-Huginn hf, Hraðfrystistöð Vestmannaeyja (stofnuð 1939) og Ísfélag Vestmannaeyja (stofnað 1901).
- Fisk: Áður Útgerðarfélag Skagfirðinga, Skagstrendingur og Hraðfrystihús Grundafjarðar.
- H.G: Áður Hraðfrystihúsið hf., Frosti, Gunnvör og Íshúsfélag Ísfirðinga.
Þá eru ótalin fjölmörg nústarfandi en gamalgróin sjávarútvegsfyrirtæki sem öll fengu úthlutað aflaheimildum í upphafi kerfisins án endurgjalds: Þorbjörn hf., Vinnslustöðin, Rammi, Skinney-Þinganes, Vísir, Síldarvinnslan, Eskja, Guðmundur Runólfsson, Ögurvík, Soffanías Cecilsson, Nesfiskur og mörg fleiri.
Eigendur þessara fyrirtækja hafa nýtt þær veiðiheimildir sem útdeilt var á fyrstu árum kvótakerfisins til þess að fjárfesta og skapa ný verðmæti. Gallinn er bara sá að þau verðmæti hafa mestmegnis runnið út úr greininni með áhættufjárfestingum og erlendum skuldum.
Ósættið um sjávarútveginn
Fram yfir 1980 voru veiðar frjálsar á Íslandsmiðum og allir gátu sótt sér þangað björg í bú án takmarkana. Sjávarbyggðirnar lifðu af því sem sjórinn gaf. Styrkur þeirra fólst í góðum höfnum og nálægð við fiskimiðin. Rekstrarstaða sjávarútvegsfyrirtækjanna var þannig nátengd afkomu byggðanna. Sterkar útgerðir voru samfélagsstólpar.
Á árunum 1980-83 óttuðust menn að fiskistofnunum stafaði hætta af ofveiði. Markmið þess að takmarka veiðar og byggja þær á úthlutun veiðiheimilda var að tryggja sjálfbæra nýtingu nytjastofnanna og auka arð af atvinnugreininni. Kvótakerfið var sett á í nafni sátta og aukinnar arðsemi.
Um enga atvinnugrein er þó meiri óeining í íslensku samfélagi en sjávarútveginn og kvótakerfið. Þeim hefur fækkað ört útgerðarmönnunum sem taka mið af samfélagslegum hagsmunum. Rekstrarlegar ákvarðanir – þar með samruni fyrirtækja og tilfærsla þeirra úr byggðarlögum – hafa verið teknar í ljósi sérhagsmuna, með sívaxandi kröfu um gróða. Arðurinn sem hefði átt að renna óskiptur til eiganda síns – fólksins í landinu og inn í atvinnugreinina sjálfa – hann rennur í stríðum straumum úr landi og út úr greininni, í áhættufjárfestingar, vaxtagreiðslur og afborganir af erlendum lánum.
Þetta – ásamt hinni alvarlegu byggðaröskun sem hlotist hefur af kvótakerfinu – er meginástæða þess ósættis sem ríkt hefur um sjávarútveginn frá því að kvótakerfinu var komið á.
En hvar liggur sökin? Liggur hún hjá stjórnvöldum, hjá útgerðinni eða hjá bönkunum?
Bankarnir bera sök. Þeir hafa lánað umhugsunarlaust til kvótakaupa og áhættufjárfestinga án þess að spyrja hvort fiskveiðarnar gætu staðið undir skuldbindingunni.
Útgerðin ber sök. Útvegsmenn líta ekki lengur á það sem siðferðilega eða samfélagslega skyldu að þjóðarbúið eða byggðirnar njóti hagsældar af atvinnugreininni. Taumleysi frjálshyggju og einkagróðahugsunar hefur náð undirtökum í þessari grein sem öðrum. Illu heilli.
Hvað með stjórnvöld? Þau bera þá sök að hafa í andvaraleysi horft upp á gang mála án þess að fá rönd við reist. Fyrr en nú, að fram hafa komið áform um að breyta núverandi kvótakerfi þannig að atvinnuvegurinn og auðlindin sem hann byggir á auki velmegun fólksins í landinu og efli hag þjóðarbúsins.
Meira um það síðar.
Höfundur er varaformaður Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.