Gjöfin dýra – fjöregg sem flýgur á milli (3. grein af 3 um sjávarútvegsmál)
Í deilum um núverandi kvótakerfi er annarsvegar tekist á um rétt þjóðarinnar, hinsvegar um sérréttindi útgerðarmanna sem fengu í árdaga kvótakerfisins úthlutað veiðiheimildum í samræmi við ákvörðun stjórnvalda. Þessar veiðiheimildir – sem upphaflega var skipt endurgjaldslaust milli útgerða – urðu með tímanum verðmæti sem menn hafa síðan þurft að kaupa eða leigja af þeim sem fengu þær upphaflega gefins.
Þetta brýtur í bága við Mannréttindasamning Sameinuðu þjóðanna sem Ísland er aðili að. Það stangast einnig á við 1. grein fiskveiðistjórnunarlaga um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu „sameign íslensku þjóðarinnar“ og að „úthlutun veiðiheimilda … myndar ekki eignarétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“ Þá má einnig minna á yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 1962 um rétt almennings til að njóta arðs og velmegunar af þjóðarauðlindum.
Mikilvægt er að skapa sjávarútveginum bestu rekstrarskilyrði sem völ er á og treysta þannig stoðir hans til langs tíma. Íslenskur sjávarútvegur er undirstöðuatvinnugrein í okkar landi. Hann mun því gegna lykilhlutverki í endurreisn efnahagslífsins. Þeim mun mikilvægara er að sátt náist í samfélaginu um eignarhald og nýtingu á auðlindum sjávar.
Slík sátt hefur aldrei náðst frá því farið var að stjórna fiskveiðum á Íslandsmiðum. Því hefur heldur aldrei myndast neinn hefðar- eða venjuréttur um núverandi kvótakerfi. Dómar hafa fallið í hæstarétti fiskveiðistjórnunarkerfinu í óhag. Í sömu veru var úrskurður Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna (24.10.2007) um að núverandi kerfi stæðist ekki jafnræðisákvæði Mannréttindasamnings SÞ sem Ísland er aðili að. Ísland er bundið af Mannréttindasamningnum og hefur í reynd viðurkennt lögbærni Mannréttindanefndarinnar til að túlka samninginn og úrskurða um hvort hann hafi verið brotinn.
Ríkisstjórnin hefur í stjórnarsáttmála sett sér það markmið að „fiskveiðar umhverfis landið séu hagkvæmar og skapi verðmæti og störf en séu jafnframt sjálfbærar og vistvænar og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um verndun vistkerfa, lífríkis og hafsbotns.“ Boðaðar eru breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu í þá átt að takmarka framsal á aflaheimildum, auka veiðiskyldu og endurskoða tilfærslur á heimildum milli ára. Í þessu skyni verði lagður grunnur að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 árum í samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi og stofnaður auðlindasjóður sem fari með ráðstöfun fiskveiðiréttinda í eigu þjóðarinnar. Arður af rekstri sjóðsins renni til atvinnuuppbyggingar. Er miðað við að þessi áætlun taki gildi í upphafi næsta fiskveiðiárs, 1. september 2010.
Jafnhliða þessu er stefnt að því að setja sérstakt ákvæði í stjórnarskrá – efnislega samhljóða 1. grein núgildandi fiskveiðistjórnunarlaga – um að fiskistofnarnir umhverfis landið séu sameign þjóðarinnar, úthlutun aflaheimilda sé tímabundinn afnotaréttur og myndi ekki undir neinum kringumstæðum eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir heimildunum.
Þær breytingar sem boðaðar hafa verið á íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu eru vonum seinni á ferðinni. Því lengur sem það dregst að rjúfa hina þöglu en ágengu eignamyndun útgerðarinnar á þjóðarauðlind okkar Íslendinga, því erfiðara verður að snúa taflinu við. Því lengur sem útgerðin kemst upp með að veðsetja og skuldfæra veiðiheimildirnar, því meiri hætta á því að þær komist í hendur erlendra kröfuhafa. Því lengur sem hagsmunagæslumönnum útgerðarinnar líðst að kasta þessu fjöreggi okkar á loft í áhættuviðskiptum, því meiri hætta er á hruni atvinnugreinarinnar.
Þetta er kjarni málsins, og nú er tímabært að þjóðin grípi fjöregg sitt.
Höfundur er varaformaður Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.