Gísli ósáttur við svör Snorra
Gísli Árnason er ekki sáttur við svör formanns Atvinnu- og ferðamálanefndar Sveitarfélagsins Skagafjarðar við erindi Gísla á byggðaráðsfundi á dögunum þar sem Gísli óskaði svara um samstarfssamning sveitafélagsins við Skagafjarðarhraðlestina.
Svaraði formaður erindinu með erindi til Feykis.is sl. föstudag en af því tilefni sendi Gísli mótsvar við erindi Snorra.
-Snorri Styrkársson, virðist halda að ég skilji ekki eðli samstarfs sveitarfélagsins og Skagafjarðarhraðlestarinnar eða að ég mistúlki samstarfið í einhverjum sérstökum tilgangi. Þetta er nokkuð harður dómur, en í samræmi við meinlega bókun meirihlutans á sveitarstjórnarfundi 9. febrúar síðastliðinn.
Skagafjarðarhraðlestin er, eins og fram hefur komið, samtök áhugafólks, stofnuð sumarið 2005 , með það að markmiði að efla atvinnulíf í Skagafirði.
Ég held að þrátt fyrir háleit og virðingaverð markmið við stofnun félagsins, sem við getum öll verið sammála um að séu mikilvæg fyrir búsetuþróun héraðsins þá hefur ímynd félagsins verið Akkilesarhæll þess frá upphafi, sem er miður. Það hefur sýnt sig undanfarið að Skagfirðingar geta staðið saman þegar hagsmunir allra íbúanna eru hafðir að leiðarljósi.
Fyrsta verkefni félagsins skyldi vera að vinna að því að virkjunarréttur í skagfirskum fallvötnum verði í höndum heimamanna og tók félagið sem slíkt eindregna afstöðu með þeim aðilum, sem sóttu fast á að virkja Jökulsárnar, Kaupfélagi Skagfirðinga og Rarik. Opinber starfsemi félagsins litaðist næstu misseri af þessu fyrsta verkefni.
Vísa ég til fundar félagsins um atvinnumál í desember 2005, þar sem Smári Geirsson og Einar Rafn Haraldsson fjölluðu um virkjanaframkvæmdir á Austurlandi.
Í febrúar 2006 sendir Skagafjarðarhraðlestin áskorun til Alcoa, að kanna til hlítar hagkvæmni þess að seja upp álver í Skagafirði. Í áskoruninni er tekið fram að engin vandamál verði í sambandi við orkuöflun.
Þrátt fyrir það að ég telji að félagið hafi að nokkru leyti afskrifað sig í upphafi, er það síður en svo ástæða beiðni minnar um upplýsingar varðandi samning sveitarfélagsins og Skagafjarðarhraðlestarinnar. Á fundi byggðaráðs 15. des síðastliðinn var tekin afstaða til rúmlega 6 milljón króna fjárheimildar, til fullnustu samnings sem rann út 15 dögum síðar, án þess að gögn þar að lútandi væru lögð fram. Upplýsingar um ofangreindan samning voru ekki heldur til reiðu á byggðaráðsfundi 4. febrúar síðastliðinn, þrátt fyrir formlega beiðni þar um. Hér þarf augljóslega að gera betur innan stjórnsýslunnar.
Gísli Árnason
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.