Garðbæingar gerðu fjögur mörk í síðari hálfleik á Blönduósi

Lið Kormáks/Hvatar peppar sig saman á Hvammstangavelli á dögunum. MYND: JÓN ÍVAR / AÐDÁENDASÍÐA KORMÁKS
Lið Kormáks/Hvatar peppar sig saman á Hvammstangavelli á dögunum. MYND: JÓN ÍVAR / AÐDÁENDASÍÐA KORMÁKS

Það var spilað í 3. deild karla í knattspyrnu í gær og á Blönduósvelli tók lið Kormáks/Hvatar á móti sprækum Garðbæingum í liði KFG. Gestirnir eygja enn möguleika á að næla í sæti í 2. deild og leikurinn því mikilvægur fyrir þá. Heimamenn geta tæknilega séð enn fallið í 4. deild en þá þurfa svo óvæntir hlutir að gerast að það yrði rannsóknarefni ef svo færi. Markalaust var í hálfleik en lið KFG fann mark heimamanna fjórum sinnum í síðari hálfleik og fór því heim með stigin þrjú. Lokatölur 0-4.

Ólafur Bjarni Hákonarson kom Garðbæingum á bragðið á t50. mínútu og gestirnir gerðu síðan út um leikinn á tveggja mínútna kafla um miðjan síðari hálfleik. Birgir Ólafur Helgason kom þeim í 0-2 á 65. mínútu og Jóhann Ólafur Jóhannson bætti við þriðja markinu tveimur mínútum síðar. Það var síðan Sigurður Gunnar Jónsson sem gerði fjórða markið á 90. mínútu.

Lið KFG er í þriðja sæti 3. deildar þegar tvær umferðir eru eftir, tveimur stigum á eftir Sindra Hornafirði sem er í öðru sæti með 41 stig. Dalvík/Reynir tróna á toppi deildarinnar með 43 stig. Lið Kormáks/Hvatar hefur nú tapað sex leikjum í röð en var komið í ansi góð mál áður en taphrinan hófst. Liðið er í níunda sæti með 20 stig, ÍH er með jafn mörg stig en óhagstæðari markatölu og síðan eru það Vængir Júpiters sem eru í ellefta sæti (fallsæti) með 17 stig. Vængirnir eru með ansi óhagstæða markatölu og eiga eftir tvo erfiða leiki. Lið KH er síðan neðst með 14 stig og svo gott sem fallið. Lið Kormáks/Hvatar á eftir að spila þrjá leiki og er næsti leikur gegn Elliða nú á miðvikudag á Fylkisvelli.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir