Fyrsti sigurinn í 1. deildinni loksins í höfn

Stelpurnar fagna sigurmarki Maríu Daggar (önnur frá vinstri) sem kom á 90. mínútu. MYND: ÓAB
Stelpurnar fagna sigurmarki Maríu Daggar (önnur frá vinstri) sem kom á 90. mínútu. MYND: ÓAB

Kvennalið Tindastóls lék í gærkvöldi við lið ÍR í 1. deild kvenna í knattspyrnu. Þrátt fyrir fína frammistöðu í bikarnum þá hafði stelpunum ekki tekist að ná sigri í 1. deildinni og fyrir leikinn í gær var liðið aðeins með eitt stig að loknum átta leikjum og það kom í síðustu umferð gegn toppliði HK/Víkings. Það var því vel fagnað í leikslok í gærkvöldi þegar fyrsti sigur sumarsins varð staðreynd eftir dramatískan hörkuleik gegn Breiðhyltingum. Lokatölur 3-2.

Fótboltinn var ekki fagur framan af leik þrátt fyrir fínar aðstæður til tuðrusparks. Það vantaði meiri þolinmæði í spil beggja liða og boltanum alltof oft dúndrað fram. ÍR-ingar lögðu greinilega upp með að skjóta hátt og fast að marki Tindastóls þar sem Friðný Fjóla Jónsdóttir, lánskona að sunnan, stóð vaktina í fjarveru Önu Luciu N. Dos Santos. Friðný er ekki há í loftinu og þann veikleika ætluðu gestirnir að nýta sér. Það varð strax ljóst að Stólastúlkur ætluðu ekki að gefa þumlung eftir og það var barist um hvern bolta og jafnræði með liðunum. Heimastúlkur komust yfir þegar Bryndís Rut Haraldsdóttir var grimmust að fylgja eftir ágætu skoti að marki ÍR á 34. mínútu. Gestirnir hertu á sóknarleik sínum og jöfnuðu metin á 38. mínútu með háu og góðu skoti að marki Tindastóls en þar var á ferðinni Andrea Magnúsdóttir. Staðan 1-1 í hálfleik.

Bæði lið komu grimm til leiks í síðari hálfleik og það var Andrea sem gerði annað mark sitt í leiknum á 54. mínútu eftir ágætt spil ÍR í gegnum vörn Tindastóls sem svaf á verðinum. Þá var komið að Stólastúlkum að spýta í lófana og nú voru stelpurnar einbeittar og þolinmóðari í leik sínum. Laufey Harpa og Madison Cannon náðu oft upp góðu spili á vinstri kantinum og þaðan kom jöfnunarmarkið á 62. mínútu. Madison fékk boltann við vítateigshornið, náði að leika á varnarmann ÍR og komst inn á teig þar sem hún dúndraði boltanum efst í fjærhornið. Glæsimark. Eftir jöfnunarmarkið var ljóst að bæði lið ætluðu sér sigurinn en heimastúlkur virtust þó enn hungraðri en ÍR-ingar. Sóknarþungi Tindastóls var meiri og færin betri. Sigurmark leiksins kom á 90. mínútu og þar var að verki varamaðurinn María Dögg Jóhannesdóttir sem var vel staðsett inni á markteig ÍR og náði að skófla boltanum í markið eftir að gestunum mistókst að hreinsa frá. ÍR náði ekki að svara á þeim tíma sem dómarinn bætti við og flottur sigur því í höfn.

Lið Tindastóls hefur verið að ná betur og betur saman eftir því sem hefur liðið á sumarið. Aðeins tveir leikir hafa tapast stórt; fyrsti leikurinn gegn ÍA fór 6-0, þar sem erlendir leikmenn liðsins voru ekki komnir með leikheimild, og síðar hafði Selfoss betur 1-4. Aðrir tapleikir hafa tapast með einu marki. Nú þegar fyrri umferð 1. deildar er lokið þá er ekkert annað í stöðunni en að byggja á fínum úrslitum síðustu tveggja leikja og gera gott mót í síðari umferð deildarkeppninnar.

Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir