Fulltrúar Byggðastofnunar kynna starfsemina
Fulltrúar Byggðastofnunar litu við í Ráðhúsinu á Hvammstanga sl. miðvikudagsmorgunn. Þar voru á ferðinni þau Arnar Már Elíasson forstjóri, Hrund Pétursdóttir forstöðumaður fyrirtækjasviðs og Sigríður Elín Þórðardóttir forstöðumaður þróunarsviðs. Í frétt á síðu Húnaþings vestra kemur fram að þau hafi kynnt umfangsmikla starfsemi stofnunarinnar en stefna hennar er blómleg byggð um land allt.
Byggðastofnun ber m.a. annars ábyrgð á atvinnuráðgjöf landshlutasamtakanna, ýmsum verkefnum byggðaáætlunar, úthlutun aflamarks Byggðastofnunar, byggðarannsóknarsjóði, umsýslu með sóknaráætlunum landshlutanna að ógleymdum lánveitingum.
„Heimsóknin var liður í fundaröð Byggðastofnunar til allra sveitarfélaga á starfssvæði stofnunarinnar með það fyrir augum að kynna starfsemina og kanna mögulega samstarfsfleti. Eftir kynningu á starfsemi stofnunarinnar í ráðhúsinu á Hvammstanga voru ýmis mál rædd og hvernig stofnunin geti áfram stuðlað að blómlegri byggð í samstarfi við sveitastjórn,“ segir síðan í færslu á Facebook-síðu Byggðastofnunar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.