Fullt hús og gríðarleg stemning
Minningartónleikar Skúla Einarssonar sem fram fóru í Félagsheimilinu á Hvammstanga laugardaginn 21. október, „gengu vonum framar og stemningin var gríðarleg, salurinn fylltist. Ég taldi ekki sjálfur inn en það gengur um sú saga að milli 220 og 230 manns hafi mætt, “ segir Guðmundur Grétar, annar af skipuleggjendum tónleikanna.
Guðmundur heldur áfram og segir: „Tónleikarnir gengu smurt fyrir sig, kórinn steig á stokk, hljómsveitin Krummafótur lék undir rest, engum leiddist, kynnar húmorískir og heimilislegir og í rauninni var allt heimilislegt þarna. Þangað voru greinilega allir komnir til að minnast Skúla. Ekki síður til að skemmta sér og styrkja gott málefni. Miðinn kostaði 4000 kr. og því hægt að gera ráð fyrir að um 600.000 kr. hafi safnast inn á Velferðarsjóð Húnaþings vestra. Þrátt fyrir að tónleikarnir væru komnir í tæplega þrjá klukkutíma, var bandið samt klappað upp.
Krummafótur hafði ekki gert ráð fyrir slíkri uppákomu en við gerðum það sem við gerum best og það var að telja í það fyrsta sem okkur datt í hug. Lagið Ofboðslega frægur, Stuðmannalagið frábæra, var valið af handahófi og það svoleiðis smurðist ofan í liðið. Í miðju lagi föttuðum við að kannski var þetta lag bara tileinkað honum Skúla sjálfum, því hann var jú einn af þessum stóru.“
Guðmundur vill svo að lokum þakka öllum kærlega fyrir komuna og ekki síður þeim sem lögðu sitt af mörkum fyrir þetta verkefni. „Allt þetta fólk hefur unnið ómetanlega vinnu og ég er viss um að hann Skúli heitinn hafi verið með okkur í anda þetta kvöld“. Systir Guðmundar, Guðrún Helga Magnúsdóttir, var á staðnum og tók myndir af tónleikunum. /gg
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.