Frumniðurstöður rannsóknanna kynntar um aldur og þróun elstu byggðar í nágrenni Hólastóls

Mynd af fyrirlestrinum. Mynd tekin af Facebook-síðu Háskólans á Hólum.
Mynd af fyrirlestrinum. Mynd tekin af Facebook-síðu Háskólans á Hólum.
Laugardaginn 7. desember var haldinn á Hólum opinn fyrirlestur á vegum Ferðamáladeildar um fornleifarannsóknir þær sem deildin hefur, ásamt UMass Boston, staðið fyrir í Hjaltadal sl. fjögur ár. Fyrirlesturinn var vel sóttur en þar voru kynntar frumniðurstöður rannsóknanna sem hafa miðað að því að kanna aldur og þróun elstu byggðar í nágrenni Hólastól, segir á Facebooksíðu Háskólans á Hólum. 
 
Rannsóknin hefur sýnt fram á að byggð hefur verið á Hólastað a.m.k. frá 10. öld en Hólar virðist hafa verið meðalbýli þegar biskupsstóllinn var stofnaður 1106. Eftir það verða Hólar langstærsta jörðin í Hjaltadal. Stærsta jörðin fyrir stofnun stólsins er hins vegar Neðri-Ás en fyrir utan almennar upplýsingar um þróun byggðar fundust þar leifar af 10. aldar skála og soðholur frá svipuðum tíma. Nokkur byggðafesta hefur verið í Hjaltadal eftir stofnun stólsins en þó hefur landnámsjörðin Hof lagst af fyrir 1300. Í seinni tíma heimildum er Hof jafnan talið eyðibýli í landi Hólastaðar. Stærstu jarðarnar virðast hafa minnkað að umfangi eftir stofnun stólsins en minni jarðir standa í stað eða stækka. Ummerki eru um að skriður hafi haft áhrif sunnanvert í dalnum en skriðuföll hafa raskað byggð á bæjunum Reykjum og í Hvammi, en þó hefur byggð þar ekki lagst af.
 
Tveir miðalda kirkjugarðar voru staðfestir, annar á Kálfsstöðum en hinn á Skúfsstöðum. Kirkjugarðurinn á Kálfsstöðum er þekktur úr heimildum en engar heimildir voru um garð á Skúfsstöðum. Báðir garðarnir fundust með jarðsjármælingartækjum en í báðum einnig grafir og beinaleifar. Kirkjugarðurinn á Skúfsstöðum er fyrsti kirkjugarðurinn sem finnst með slíkum tækjum hérlendis án fyrirliggjandi þekkingar um kirkju. Vísbendingar um byggrækt fannst á sjö jörðum, eða 24% allra jarða sem rannsóknin tók yfir.
 
Enn er beðið niðurstaðna úr aldursgreiningum og ýmsum öðrum greiningum en skýrsla mun koma út um rannsóknirnar á vordögum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir