Frostrósir mæta í Miðgarð

Frostrósir eiga örugglega eftir að taka sig vel út á sviðinu í Miðgarði.

Jólatónleikar Frostrósa verða í fyrsta skipti haldnir í Skagafirði mánudagskvöldið 7. desember næstkomandi og fara fram í Menningarhúsinu Miðgarði í Varmahlíð. Herskari frábærra söngvara mun dreifa fögrum jólatónum yfir áhorfendur og koma Skagfirðingum og nærsveitamönnum í jólagírinn.

Þau Margrét Eir, Hera Björk, Guðrún Gunnars og Friðrik Ómar munu sjá um sönginn ásamt tenorunum Jóhanni Friðgeir og Garðari Thór Cortes auk Hrynsveitar Frostrósa, strengjakvartetts og barnakóra.

Gífurleg vinna hefur allt árið farið í undirbúning tónleikanna. Öll umgjörð verður með glæsilegasta móti og einnig hefur dagskrá tónleikanna aldrei verið eins spennandi og að þessu sinni en þar fá þekktustu perlur og sálmar jólanna að njóta sín ásamt nokkrum okkar bestu íslensku jólalögum og svo lögin flest sem Frostrósir eru þekktastar fyrir.

Frostrósir 2009 verða í Vestmannaeyjum, Ólafsvík og á Egilsstöðum, Eskifirði, Sauðárkróki og Ísafirði dagana 1.-9. desember. Að sjálfsögðu verða Frostrósir með tónleika í Höllinni á Akureyri og í Laugardalshöll í Reykjavík fyrir sunnan.

Heimasíða Frostrósa >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir