Frjálsíþróttavöllurinn á Sauðárkróki er bestur
Á heimasíðu Frjálsíþróttasambands Íslands, FRÍ, er sagt frá könnun sem gerð var fyrir stuttu þar sem lesendur fri.is voru spurðir hver væri skemmtilegasti keppnisvöllurinn á landinu að þeirra mati. Niðurstaðan varð sú að frjálsíþróttavöllurinn á Sauðárkróki þótti bera af öðrum völlum landsins en alls 23% svarenda kaus hann.
Kópavogsvöllur og Laugardalsvöllur fylgdu fast á eftir Sauðárkróksvelli með 18 og 15% en alls tóku um 250 aðilar þátt í könnuninni.
Frjálsíþróttavöllurinn á Sauðárkróki var byggður fyrir 24. Landsmót UMFÍ árið 2004. Mikill og stór hópur eldri ungmennafélaga mætti á Landsmótið. Þátttakendur voru 1560 talsins og það má áætla að um 12.000 manns hafi komið og fylgst með keppni og öðrum viðburðum sem boðið var upp á.
UMSK fór með sigur í heildarstigakeppni mótsins með alls 1986 stig og rúmlega tvö hundruð stigum á undan UMSS sem varð í öðru sæti. Í þriðja sæti voru HSK-menn með 1653 stig.
Frjálsíþróttakappinn Jón Arnar Magnússon, sem keppti fyrir UMSK á þeim tíma, var stigahæsti keppandi mótsins með 49 stig. Frjálsíþróttakonan Vilborg Jóhannsdóttir UMSS hlaut 41 stig.
12. Unglingalandsmót UMFÍ var svo haldið vellinum í ár og mótshald til mikillar fyrirmyndar. Ætla má að yfir 10.000 manns hafi komið á Krókinn þessa Verslunarmannahelgina.
-Við í frjálsíþróttadeildinni erum afar stolt af úrslitunum, ekki síst fyrir hönd þeirra fjölmörgu sjálfboðaliða sem alltaf eru til taks, þegar þörf er á, og gera mögulegt að halda hér glæsileg mót sem minnst er um allt land, segir Ásbjörn Karlsson hjá frjálsíþóttadeild Tindastóls.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.