Frjálsíþróttafólk UMSS kjörið
Laugardaginn s.l. var haldið frjálsíþróttamót UMSS innanhúss í íþróttahúsinu á Sauðárkróki. Fjöldi keppenda tók þátt og góð tilþrif sáust þó ekki væru nein met slegin í þetta sinn.
Meðal keppenda voru þrjár efnilegar stúlkur sem gáfu sér tíma í smá spjall. Það voru þær systur Bettína og Fríða Friðriksdætur og Þóranna Ósk Leifsdóttir.
Fríða sagðist ætla að keppa í öllum greinum á mótinu en best er hún í hlaupum og í þeim er líka skemmtilegast að keppa ásamt stangarstökkinu. Hvort hún hafi unnið eitthvað á mótinu var hún ekki alveg viss en gæti verið.
Bettína er hlaupagarpur eins og yngri systir og best er hún í 60 m hlaupi. Hún ætlaði að keppa í öllu nema langstökki og var þegar blaðamaður talaði við hana búin að landa öðru sætinu í hástökki.
Þóranna ætlaði að keppa í öllu en hún gat ekki gert upp við sig hver væri hennar besta grein en spjótið er ekki í uppáhaldi. Hún var búin að hreppa ein fyrstu verðlaun og það var í kúluvarpi.
Þóranna Ósk sem er 12 ára er mikið efni í afrekskonu og hún keppti í nokkrum greinum á silfurleikum ÍR fyrr í vetur og varð í 3-4 sæti í hástökki 12 ára stelpna og stökk 140 cm. Í grindarhlaupi varð hún í 8. sæti stúlkna 13-14 ára þar sem hún keppti í flokki fyrir ofan sig og svo hljóp hún á 10,80 sek sem er besti árangur í 12 ára flokki stelpna í ár innanhúss.
Þær stöllur voru sammála um það að það væri rosalega gaman að keppa í frjálsum.
Að loknu móti var haldið samsæti í Framsóknarhúsinu og voru eftirtaldar viðurkenningar veittar:
Frjálsíþróttakarl UMSS 2008: Gauti Ásbjörnsson.
Gauti varð Íslandsmeistari í stangarstökki karla og vann einnig sigur í stangarstökki í Bikarkeppni FRÍ.
Frjálsíþróttakona UMSS 2008: Linda Björk Valbjörnsdóttir.
Linda Björk varð þrefaldur Íslandsmeistari (15-16 ára), í 60m, 200m og 60m grindahlaupi innanhúss.
Þá setti hún Íslandsmet (15-16 ára) í 300m grindahlaupi.
Efnilegustu unglingar UMSS 2008: Jóhann Björn Sigurbjörnsson og Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir sem ritað er um fyrr í fréttinni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.