Friðarhlaupið á Hvammstanga
Friðarhlaupið (World Harmony Run) sem er alþjóðlegt kyndilboðhlaup var ræst í Laugardal þann 2.júlí af Katrínu Jakobsdóttir, menntamálaráðherra og munu hlauparar heimsækja Hvammstanga á miðvikudag.
Tilgangur hlaupsins er að efla frið, vináttu og skilning manna og menningarheima á milli. Sem tákn um þessa viðleitni bera hlaupararnir logandi kyndil, sem berst manna á milli í þúsundum byggðarlaga í yfir hundrað löndum. Tuttugu og fimm hlauparar frá fimmtán þjóðlöndum taka þátt í friðarhlaupinu.
Friðarhlaupið hóf göngu sína árið 1987 og hefur verið árlegur viðburður síðan þá. Hlaupararnir fara hringinn í kringum landið á rúmum tveimur vikum en hlaupinu lýkur í Reykjavík þann 16. júlí. Um er að ræða boðhlaup þar sem hver og einn hlaupari hleypur um það bil 15 kílómetra.
Hlaupið er haldið í yfir hundrað löndum, friðarhlaupinu lauk í Frakklandi í gær og næst fer hlaupið fram í Úkraínu. Hlaupararnir koma við í fjölmörgum bæjum á leið sinni og fá allir sem það vilja að hlaupa með kyndilinn.
Hlaupararnir verða á Hvammstanga 8. júlí kl. 15:00 og langar til að hitta börnin í sveitarfélaginu, bæði til að hlaupa smá með þeim og einnig til að segja börnunum frá þessu alþjóðlega vináttuhlaupi. Fólk er hvatt til að fjölmenna og taka vel á móti hlaupurunum við Söluskálann á Hvammstanga kl. 14:45 og hlaupa með þeim að Íþróttamiðstöðinni.
Einnig er Gunnlaugur Júlíusson (ættaður frá Bakka í Víðidal) að hlaupa á milli Reykjavíkur og Akureyrar til styrktar Grensásdeildinni. Hann ætlar að hlaupa u.þ.b 60 km á dag. Hann stefnir að því að verða í Húnavatnssýslu næstkomandi þriðjudag og miðvikudag. Gaman væri ef einhverjir gætu skokkað með honum smá spöl. Þá kannski helst í kringum Hvammstangavegamót. Þar verður hann sennilega um kl. 16,00 á morgun þriðjudaginn 7. júlí, hægt er að fylgjast með ferðum Gunnlaugs á Rás 2 og líka inni á www.hlaup.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.