Framkvæmdir við Sundlaug Sauðárkróks hefjast í haust
Byggingarnefnd Sundlaugar Sauðárkróks hefur samþykkt að farið verði í hönnun byggingarnefndarteikninga og kostnaðargreiningu á breytingum á Sundlaug Sauðárkróks samkvæmt fyrirliggjandi drögum frá Úti og inni arkitektum, sömu og teiknuðu viðbyggingu Árskóla. „Þetta eru ekki fullmótaðar tillögur en þetta er hugmyndafræðin sem við erum að vinna eftir,“ sagði Stefán Vagn Stefánsson, formaður nefndarinnar, í samtali við Feyki.
Það er verkfræðistofan Stoð ehf. sem mun annast verkfræðiþátt framkvæmdarinnar. Framkvæmdum við breytingu og nýbyggingu vegna sundlaugarinnar verður skipt upp í A og B áfanga. Í áfanga A verður unnið við að breyta högun innanhúss og þess háttar og felur áfangi B í sér nýbyggingu útisvæða. Stefnt er að því að hefjast handa við áfanga A í haust. Markmiðið er að halda lauginni opinni eins mikið og kostur er á meðan framkvæmdum stendur.
„Við stefnum ekki á að gera neitt hlé á þessu, við ætlum bara að halda áfram og klára dæmið. Það hefur lengi verið hávær krafa um þetta, komið fram alls konar hugmyndir og útfærslur en flestar þeirra voru svo dýrar og umfangsmiklar að það var ekki nokkur leið fyrir sveitarfélagið að fara í þær. Svo þegar við hugsuðum þetta útfrá sömu hugmyndafræði og Árskóla, að nýta það sem fyrir er og byggja ofan á og við, varð þetta mun ódýrara en þær hugmyndir sem menn upphaflega ætluðu í. Við sáum þarna leið sem varð til þess að við getum farið í þetta fjárhagslega,“ sagði Stefán.
Nýtt laugarsvæði með rennibrautum
Samkvæmt fyrirliggjandi drögum frá Úti og inni arkitektum þá er sundlaugin á annarri hæð, gengið er inn í anddyri að austan (nyrst) og þar er gengið upp stigahús að afgreiðslu. Lítið stigahús er handan við horn inngangsins og er farið inn í það að norðan. Meðfram austurveggnum er kvennaklefinn og verður hafist handa við hann í haust. Búningsklefi nyrst, þurrksvæði og salerni, sturtuklefi og útgönguleið að laugarsvæði. Afgreiðslan verður með glervegg þannig hægt sé að horfa þaðan yfir sundlaugarsvæðið, þar við hliðina á er veitingasvæði.
Vestan við veitingasvæðið er fjölskyldurými, þar sem umönnunaraðili, jafnvel af gagnstæðu kyni, geta verið saman í klefa. Þar vestar er karlaklefinn; búningsklefi, salernisaðstaða, þurrksvæði og síðan er gengið út á laugarsvæði úr sturtuklefa vestast. Þegar framkvæmdum er lokið í kvennaklefa stendur til að færa karlaklefann tímabundið í eldri kvennaklefann á meðan framkvæmdir eru í karlaklefanum. Þá er eimbað teiknað vestan við sundlaugina.
Sunnan við sundlaugina er teiknað nýtt laugarsvæði, fyrrnefndur B áfangi, sem Stefán segir geta tekið talsverðum breytingum í vinnsluferlinu. Þar er gert ráð fyrir köldum pott, vað- og barnalaug og rennibrautum þar sem gengið er inn í rennibrautarhús svo börnin standi ekki úti á meðan beðið er eftir að renna sér.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.