Framendinn er fjandi þver,
Um síðustu helgi var haldin heljarinnar hátíð Land Rover eigenda í Húnaveri. Rúmlega 100 manns mættu á staðinn á 48 bílum og nutu þess að skemmta sér saman í mikilli veðurblíðu.
Á Bögubelgnum er mikill kvæðabálkur um þessa ágætu Land Rover bíla en kveikjan að þeim var að árið 2008 var haldin heilmikil hátíð í Húnaveri í tilefni 60 ára afmælis Land-Rover.
Segir höfundurinn Teitur Þorbjörnsson að kvikindið hafi komið upp í honum og fóru þá að brjótast út þessar vísur. -Sjálfsagt á einhverjum eldheitum Land-Rover aðdáanda eftir að svíða undan eða finnast ég fara með fleipur um þessa ágætu eðalvagna. Dæmi hver fyrir sig...,segir Teitur
LAND-ROVERRÍMUR
Hérna nokkur kvæði kveð,
karskur á það stefni.
Ætla hafa háðið með,
hæfir þessu efni.
Hátíð mikla halda skal,
hampa jeppum fínum.
Leggja innst í Langadal,
Land-Roverum sínum.
Stoltir eru strákarnir,
standa við þá rjóðir.
Finnst þeim betri fákarnir,
fáir hér um slóðir.
Finna má samt margan löst,
miklir eru gallar.
Eru skotin oftast föst,
um þau bragur fjallar.
Framendinn er fjandi þver,
fráleitt loftið brýtur .
Strembin loftmótstaðan er,
stundum aflið þrýtur.
Margoft hefur mikill þar
mosinn skotið rótum.
Gluggafölsum finnur var
finnst í brúskum ljótum.
Lucas-ilm þeim leggur frá,
ljúfur er sá angan.
Finnst þér skutinn skorta, þá
skaltu fá þér „langan“.
Mikið í þeim marr og skrölt,
mjúk er fjöðrun ekki.
Starta þeim er bölvað brölt,
býr til dökka mekki.
Eflaust galla meiri má
myndarlega finna.
Einhverjir þó þekkja þá,
þarf vart á að minna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.