Fráleit og ólíðandi framkoma

Rúmir þrír mánuðir hafa liðið án þess að forsætisráðherra svaraði  formlega bréfi Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi  vestra frá 21. nóvember sl. þar sem óskað var eftir fundi með ráðherra og að settur yrði á laggirnar starfshópur um málefni landshlutans. Þetta er auðvitað forkastanleg framkoma og fyrir vikið tók ég málið upp í sérstakri umræðu á Alþingi í dag, fimmtudaginn 23. febrúar.

 

Það var fyrst undir þessari umræðu að forsætisráðherra lýsti því yfir að hún ætlaði að nota tækifærið til þess að hitta fulltrúa  sveitarfélaganna að máli. Það ætti gerast eftir fund af öðrum toga þar sem hún hitti sveitarstjórnarmenn að máli alls staðar að af landinu. Þetta er þó ekki það sem um var beðið og alveg ljóst að á þessum fundi yrðu ekki nema hluti þeirra fulltrúa svæðisins sem óskuðu eftir fundinum með ráðherranum fyrir þremur mánuðum. Þessi redding ráðherrans út úr umræðunni er því alls endis ófullnægjandi.

 

Bréf sent 21. nóvember

Tildrögin að málinu eru annars þessi.
Þann 21. nóvember síðast liðinn sendi framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra bréf til forsætisráðherra fyrir hönd samtakanna  þar sem farið var yfir alvarlega stöðu á Norðurlandi vestra ekki síst í ljósi mjög slæmrar íbúðaþróunar. Var þess farið á leit að settur yrði á laggirnar starfshópur til þess að greina stöðu svæðisins, orsakir þess mikla fólksflótta sem hefði orðið undanfarin misseri , aðstæður í atvinnulífinu og  lífskjör íbúanna.  Jafnframt var þess óskað að stjórnin gæti átt fund með ráðherranum.

Á Norðurlandi vestra fækkaði um 200 manns í fyrra, það var 75% þeirrar fólksfækkunar sem varð á landsbyggðinni í fyrra.

Hér er um mikið alvörumál að ræða, sem íbúar á Norðurlandi vestra leggja gríðarlega mikla áherslu á. Því hefði mátt vænta þess að forsætisráðherra brygðist hratt og vel við, efndi til funda og leitaðist við að svara bréfi sem berst frá heildarsamtökum heils landshluta, þar sem svo brýn mál eru borin upp.
En því er nú ekki að heilsa. 

Virðingarleysi við íbúa Norðurlands vestra

Það liðu þrír mánuðir og gott getur  og enn bólar ekki á formlegu svari frá ráðherranum. Með öðrum orðum; sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi vestra eru ekki einu sinni virtir svars. Þetta sýnir auðvitað mikið virðingarleysi. Ekki bara gagnvart sveitarstjórnarmönnunum heldur íbúunum í heild, þegar svona er komið fram við kjörna fulltrúa þeirra, sem eru að reyna að gæta mikilvægra hagsmuna svæðisins.  Þetta er auðvitað gjörsamlega ólíðandi og vinnubrögð sem forsætisráðherra getur ekki verið þekktur fyrir.

Það er auðvitað ekki svar -  og sveitarstjórnarmennirnir deila þeirri skoðun minni, -  að forsætisráðherra  lét hringja norður á föstudagskvöldi og bjóða upp á fund með starfsfólki ráðuneytisins. Með fullri virðingu fyrir því, þá sneri beiðni heimamanna alls ekki að þessu. Þeirra beiðni laut að fundi með forsætisráðherra  landsins, mjög að gefnu tilefni um grafalvarlegt mál, sem snertir brýnustu lífshagsmuni heils landshluta. Jafnframt ósk um stofnun starfshóps um hagsmunamál svæðisins. Þess vegna er það alveg makalaust að úr ráðuneytinu berist ekki formlegt svar við svo sjálfsögðu erindi. Það er sjálfsögð krafa að við sé brugðist  með jákvæðum hætti, sem lýsi skilningi á vandanum og einbeittum vilja til þess að bregðast við svo sem kostur er.

Mæðist auðvitað í mörgu

Auðvitað vitum við að forsætisráðherra  er önnum kafinn, mæðist í mörgu og þarf að kljást við mikil innanmein í stjórnarsamstarfinu. En er það virkilega svo að ekki hafi fundist tími, - svo sem einn klukkutími í dagskrá ráðherrans  á þriggja mánaða tímabili - til þess að funda með fulltrúum heils landshluta þegar svo brýn erindi eru borin upp? Er dagskráin svo þétt skipuð og önnur mál svo mikið brýnni að ekki megi sjá af stuttri stund til þess að ræða þessi stórmál, sem snerta heilan landshluta og borin eru upp með kurteisi og velvilja.

Alvarleg íbúaþróun – fækkun opinberra starfa 

Við þekkjum viðfangsefnið. Á Norðurlandi varð 200 manna fækkun á síðasta ári sem er 75% fólksfækkunar á landsbyggðinni á því ári. Það hefur verið viðvarandi neikvæður hagvöxtur. Og bara í Skagafirði einum hefur opinberum störfum fækkað um  65 á þremur árum. Þar af um helmingurinn á Heilbrigðisstofnuninni á  Sauðárkróki.  Þetta eru afleiðingar pólitískra ákvarðana sem sveitarstjórnarmenn á svæðinu láta sig varða og hljóta því að eiga brýnt erindi við ráðherrann.

Svona vinnubrögð og þessi framkoma er auðvitað ólíðandi. Þetta er ekki góð stjórnsýsla; að svara ekki formlegu erindi og láta nægja með eftirgangsmunum að segja frá því á Alþingi, að ætlunin sé að draga menn út í horn á alls óskyldum vettvangi til þess að ræða eitthvað málin. Forsætisráðherrann okkar, með allar sínar stjórnsýsluumbætur á vörunum, hlýtur að geta staðið sig betur en þetta.

Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir