"Frábærir tónleikar og innilegar þakkir til ykkar allra!"
Á laugardag voru haldnir tónleikar í Félagsheimilinu Ásbyrgi til styrktar Júlíusi Má Baldurssyni, sem varð fyrir miklu tjóni í bruna sem varð á Tjörn í lok mars s.l. Júlíus er fullur af þakklæti fyrir þann stuðning sem hann hefur fengið og sendi Norðanátt smá kveðju til birtingar.
"Mig langar til að senda ykkur öllum sem voruð á tónleikunum í Ásbyrgi laugardagskvöldið 05. júní s.l. innilegar þakkir fyrir góða og skemmtilega kvöldstund."
"Helga, Palli og þið er stóðuð að tónleikahaldinu..... hafið innilega þökk fyrir allt sem þið gerðuð og lögðuð á ykkur við undirbúninginn til að gera þetta kvöld að veruleika. Allir flytjendur tónlistarinnar, bæði þið er spiluðuð lögin og þið sem sunguð, hafið mjög svo kæra þökk fyrir ykkar framlag. Þetta var frábært hjá ykkur öllum.
Vertinn í Víðigerði, Guðmundur Steinsson, er lagði til veitingarnar sem í boði voru, hafðu innilega þökk fyrir þitt framlag. Og ekki síst þið öll sem mættuð á svæðið og áttuð þessa góðu kvöldstund með mér.....innilegar og kærar þakkir til ykkar allra fyrir stuðninginn.
Þetta var frábært kvöld, gaman og skemmtilegt og sú besta kvöldstund sem ég hef átt í langan tíma. Það var líka mjög gaman að sjá og heyra hvað mikið er til að góðu og hæfileikaríku fólki í héraðinu. Þessir tónleikar og stuðningur ykkar allra sýna manni svo vel að maður er sannarlega ekki einn á ferð í lífinu þegar eitthvað bjátar á. Stuðningur ykkar allra mun fylgja mér í gegnum lífið sem ein af mínum betri minningum.
Enn og aftur....hafið öll kæra og innilega þökk fyrir mig.
Kærar kveðjur til ykkar allra frá Tjörn
Júlíus Már Baldursson"
/Norðanátt
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.