Frábær tilfinning að finna týnda konu


Björgunarsveitin Skagfirðingasveit tók þátt í hálendisgæsluverkefni Slysavarnarfélagsins Landsbjargar (SL) sem í ár er rekið í fimmta skipti.

Verkefnið er unnið af sjálfboðaliðum björgunarsveitanna auk starfsfólks SL. Vikuna 26. Júní til 6. Júlí dvöldu fjórir vaskir sveinar úr Skagfirðingasveit í viku tíma á Hveravöllum í blíðviðri og góðu yfirlæti ef frá er talin táfýla sem gjarnan fylgir svona túrum.

Hópurinn hafði aðstöðu í gám sem SL skaffar og var staðsettur við þjónustumiðstöðina á Hveravöllum, tveir voru á Hveravöllum í senn og tveir í eftirliti. Hveravellir og nágrenni skörtuðu sínu fegursta og umferð því mikil á svæðinu. „Þegar við mættum á svæðið var Kjalvegur eins góður og hann verður en á þeirri viku sem við eyddum þarna uppfrá breyttist vegurinn í samfellt þvottabretti frá Hveravöllum og niður á malbik“, útskýrir Jón „Hö“ formaður Skagfirðingasveitar. Eftir því sem vegurinn versnaði fjölgaði aðstoðarbeiðnum vegna sprunginna dekkja og annarra bílavandræða.
Hópurinn fékk fjölmörg önnur verkefni en að aðstoða ökumenn með sprungin dekk. Hóparnir starfa eftir fyrirfram gefnu skipulagi í hálendisgæslunni. Hópurinn fór í alla skála sem liggja við og út frá Kjalvegi auk þess sem helstu slóðar voru keyrðir a.m.k einu sinni á tímabilinu. Sá hluti hópsins sem var staðsettur á Hveravöllum sinnti ýmsum hjálparbeiðnum, ýmist við að segja fólki til vegar eða aðstoða fólk í bílavandræðum. Ein hjálparbeiðnin sem hópurinn sinnti fólst í að aðstoða ástralskan mann sem bundinn er við hjólastól að komast um hverasvæðið á Hveravöllum sem er ekki fullkomlega aðgengilegt hreyfihömluðum. Hópurinn sinnti einnig örðum beiðnum, s.s. eins og að draga upp 70 manna rútu, ferja fólk yfir vatnsföll og leita að göngufólki sem skilaði sér ekki í skála á tilsettum tíma. Tvisvar sinnum fór hópurinn af stað til að leita að göngufólki og í bæði skiptin fannst fólkið fljótt og örugglega.
Þýsk kona sem var á göngu með manni sínum frá Þjófadölum að Hveravöllum skilaði sér ekki á tilsettum tíma á Hveravelli. Þau höfðu skipt liði, maðurinn ætlaði að taka á sig krók en konan að ganga hefðbundna leið að Hveravöllum. Maðurinn kom í Hveravelli og vænti þess að kona hans biði þar en þegar svo var ekki bað hann um aðstoð. Að sögn björgunarsveitamannana var það var „frábær tilfinning að finna konuna og mikill léttir, en við gengum fram á hana á fjallinu Stélbratti eftir að hún hafði villst af leið og gengið auka hring í kringum Þjófafellið.“ Ekkert amaði að konunni en hún var þreytt eftir gönguna og fékk far með björgunarsveitarbílnum það sem eftir var á Hveravelli.
Tilgangur verkefnisins er bæði að fyrirbyggja slys og óhöpp auk þess að stytta viðbragðstíma ef eitthvað kemur uppá. Eins og dæmin sanna getur viðbragðstími skipt sköpum, t.d. ef að faratæki festast í ám, þegar fólk týnist og síðast en ekki síst ef ferðalangar á fjöllum slasast. Þátttakendur öðlast ómetanlega þekkingu á svæðinu og staðháttum sem getur átt eftir að koma sér vel síðar, þegar aðstæður eru erfiðar.
Að lokum má til gaman geta þess að þegar Skagfirðingasveit hafði lokið viku dvöl sinni á Hveravöllum kom um 20 manna hópur frá Björgunarveit Hafnafjarðar til að leysa Skagfirðingasveit af. Spori í Hafnarfirði mætti með tvo fullbreytta jeppa, vörubíl og tvö fjórhjól meðferðis. Það  hafa þeir náð að fylla í það skarð sem Skagfirðingasveit skildi eftir sig.
Björgunarsveitin Skagfirðingasveit vill þakka fyrirtækjum og einstaklingum á Sauðárkróki fyrir sitt framlag til verkefnisins. Að auki vill hópurinn þakka starfsfólkinu á Hveravöllum fyrir ómetanlegar móttökur sem gerðu ferðina enn ánægjulegri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir