Frábær afmælishátíð í Þytsheimum
Afmælishátíð Hestamannafélagsins Þyts var haldin hátíðleg á laugardaginn að viðstöddu fjölmenni í reiðhöllinni á Hvammstanga sem var í tilefni dagsins vígð og gefið nafnið Þytsheimar. Vel yfir 100 manns komu að sýningunni.
Hátíðin byrjaði á fánareið og ræðuhöldum. Sigrún Þórðardóttir formaður Þyts hélt ræðu um tilurð félagsins og byggingu reiðhallarinnar. Séra Magnús Magnússon blessaði húsið og segir á heimasíðu Þyts að engu hafi verið líklegra en hann hafi náð sambandi við veðurguðina því um kl 14:00 var leiðindaveður, norðaustan hríð, en um 15:00 þegar hátíðin var að hefjast og Magnús búinn að blessa húsið þá birti til.
Guðný Helga oddviti Húnaþings vestra fór með vísu sem hún orti um hestamannafélagið og reiðhöllina. Anna María gaf hestamannafélaginu skeiðklukkur frá Ungmennasambandinu og formaður LH Haraldur Þórarinsson tók einnig til máls. Síðan kom hvert flotta atriðið á fætur öðru. Í hléi var sannkölluð kökuveisla í boði félagsmanna þar sem veisluborð svignuðu undan kræsingum.
Á Hvammstangablogginu er hægt að sjá tvö atriðanna þ.e. "Svörtu folarnir" og "Dívurnar".
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.